Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Strangt eftirlit forsenda samnings við Airbnb

16.10.2017 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Með því að semja við Airbnb vill Reykjavíkurborg standa vörð um hagsmuni íbúa. Þetta segir borgarstjóri. Í síðustu viku samþykkti borgarráð Reykjavíkurborgar að stofna samninganefnd sem á að hefja viðræður við ferðaþjónustufyrirtækið Airbnb. Nefndin ætlar að taka mið af samningum sem borgaryfirvöld í Amsterdam og Lundúnum hafa gert við stórfyrirtækið. 

Mikill vöxtur, litlar upplýsingar

„Þetta hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum og þróast frá því að hafa verið bjargráð fjölskyldna eftir hrun, sem voru að nýta útleigu til ferðamanna til þess að standa undir húsnæðislánum sem ruku upp, yfir í það að lítil og stærri fyrirtæki og einstaklingar kaupi upp íbúðir til að hafa alfarið í svona rekstri,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Hann segist ekki hafa nákvæma yfirsýn yfir umfang skammtímaútleigu í Reykjavík, niðurstöður greininga séu misvísandi og Airbnb hafi ekki verið viljugt til að veita upplýsingar. 

London: Airbnb stöðvar útleigu eftir 90 daga

Lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald var breytt um síðastliðin áramót. Kerfið í kringum skammtímaútleigu til ferðamanna var einfaldað og heimagistingu sett skýr mörk. Íbúðaeigendur mega leigja út eign sína í 90 daga á ári og hafa upp úr því samtals 2 milljónir. Ef íbúðaeigendur vilja leigja eignir sínar út til lengri tíma þurfa þeir að fá leyfi skipulagsyfirvalda fyrir starfseminni og það er ekki auðsótt í íbúðahverfum. Formaður Samtaka um skammtímaleigu á heimilum hefur gagnrýnt þetta. 

 Í London er líka 90 daga regla en í Amsterdam má að hámarki leigja út eignir í skammtímaleigu í 60 daga á ári. Samningur þessara borga við Airbnb tók gildi í byrjun árs og felur í sér að fyrirtækið setur leigunni sjálfkrafa skorður þegar hámarksdagafjöldi er liðinn. Fólk getur ekki leigt út eignir sínar lengur nema það sendi fyrirtækinu pappíra sem staðfesta að borgin hafi veitt leyfi fyrir rekstrinum. 

Hraðvaxtarborgir tala sig saman

Síðastliðið ár hafa fulltrúar Reykjavíkurborgar rætt við yfirvöld í öðrum evrópskum borgum þar sem ferðaþjónusta hefur verið í örum vexti. Þær hafa allar unnið að því, hver með sínum hætti, að koma böndum á þessa starfsemi.  Á þessum vettvangi frétti borgarráð af samningaviðræðum Amsterdam og London við Airbnb.

Mynd með færslu
 Mynd: Airbnb - Skjáskot

Skrá íbúðina upp á nýtt eða finna sambærilegt fyrirtæki

Ónefndur, breskur leigusali sem leigir út íbúð í London hélt því fram við breska ríkisútvarpið, BBC, í febrúar að þessi breyting myndi engin áhrif hafa. Þegar 90 dagar eru liðnir skrái hann eignina upp á nýtt, setji inn nýjar myndir þannig að það líti út fyrir að hann sé að skrá nýja eign, og hniki staðsetningunni aðeins til. Margir hyggist gera það sama. Annar viðmælandi BBC segist einfaldlega ætla að skrá eignirnar hjá öðrum fyrirtækjum sem reka sambærilegar síður en þau skipta tugum; Trip Advisor Rentals, Homeaway, Booking.com, Flip Key, Tripping Vaystays og áfram mætti telja, á mörgum þessara síðna er hægt að finna íbúðir til leigu í Reykjavík. BBC hafði samband við einhver þessara fyrirtækja og þau sögðust ekki hafa í hyggju að fara að setja útleigu skorður eða óska eftir pappírum frá notendum. 

Vilja létta pressu af húsnæðismarkaðnum

„Þetta er meðal annars hættan sem hefur verið bent á en í íslensku lögunum er reglusetningin óháð því hvaða síðu þú notar og bæði hámark daga og tekna. Það eru leiðir sem verið er að reyna að fara til að ná utan um þetta en auðvitað verðum við að vera viðbúin því, þetta er ný þróun og þeir sem eru með einbeittan brotavilja geta reynt að fara framhjá. Þá þurfum við að vera með nógu öfluga eftirlitsaðila til að fylgja þessari löggjöf eftir. Markmið okkar hjá borginni snýr fyrst og fremst að því að létta pressunni sem þessi starfsemi er á húsnæðismarkaðinn, sérstaklega á vissum svæðum. Við teljum að húsnæðismarkaður og langtímaleiga fyrir venjulegt fólk eigi að vera í fyrsta sæti og viljum sporna gegn hvatavonin þarna sé með óvenjulegum hætti, til dæmis skattaundanskotum. Þess vegna viljum við fá þetta upp á yfirborðið og setja ramma utan um þetta. Okkur finnst allt í lagi að fjölskyldur fjármagni frí til útlanda með því að leigja íbúðina sína en ef íbúðir eru alfarið í Airbnb-leigu finnst okkur eðlilegt að þær séu í sama rekstrar- og skattaumhverfi og hótelíbúðir.“ 

En kemur til greina hjá borginni að semja við fleiri fyrirtæki en Airbnb? 

„Það eru aðrir sem eru nokkuð stórir. Við töldum einfaldlega rétt að byrja einhvers staðar en að sjálfsögðu finnst okkur eðlilegt að allir sitji við sama borð.“ 

Dagur vonar að samningur við Airbnb verði til þess að eignir losni, færist yfir í langtímaleigu. „Línurnar sem við höfum lagt í skipulagi stuðla að sama markmiði.“

Hann segir að þegar séu blikur á lofti. 

Í Speglinum í síðustu viku var rætt við nokkra fasteignasala, sem sögðu lítið um það nú að fólk væri að kaupa íbúðir gagngert til að leigja þær út á Airbnb, það væri frekar að losa sig við þær, fasteignasalarnir tengdu þetta meðal annars 90 daga reglunni.

Dagur telur þetta góða þróun en segist hafa áhyggjur af því hvort Sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu sé nógu burðugt til að sinna eftirliti, þar sem það sé hlaðið verkefnum. „Við hefðum viljað ræða það hvort þessi eftirlitsþáttur ætti að vera hjá sveitarfélögum sem fengju síðan gistináttagjald af ferðamönnum til að standa undir þeim kostnaði og hefðu þannig beinan hag af því að þetta væri í lagi.“ 

„Gerist lítið fyrr en fólki er vísað út“

Hann segir þó of snemmt að fella dóma um eftirlit sýslumanns enda ekki komin nógu mikil reynsla á það. Tryggja þurfi því nægt fjármagn. Strangt eftirlit sé forsenda þess að samninganefnd borgarinnar nái árangri í viðræðum við Airbnb. „Það þarf líka að tryggja lögreglunni, sem þarf að vera með í þessum verkum, fjármuni til að fara á staðinn ef það slær í brýnu. Við vitum það af reynslunni í Amsterdam að það er kannski ekki fyrr en samfélagsmiðlarnir eru farnir að vera fullir af fólki sem er vísað út úr óleyfisíbúðum af lögreglu sem það koma viðbrögð og samningar nást.“