Eyborg Guðmundsdóttir (1924-1977) var um margt sérstæður listamaður í íslenskum listheimi. Ferillinn var alltof stuttur, en snarpur og Eyborg skildi eftir sig mörg geysigóð verk eins og glöggt má sjá á sýningunni. Verk hennar byggjast á fyrirmyndum geómetrískrar abstraktlistar þar sem sjónræn áhrif reglubundinna forma eru megináherslan, stíll sem kenndur er við op-list (e. optical). „Eyborg er listamaður sem tók íslensku strangflatarlistina lengra, með sínum persónulega hætti,“ segja sýningarstjórarnir tveir, Heba Helgadóttir og Ingibjörg Sigurjónsdóttir sem sögðu frá Eyborgu í Víðsjá á Rás 1.
Óskabarn „abstraktelítunnar“
„Eyborg var mikið innan um elítu abstraktlistamannanna íslensku á sínum tíma, bjó til dæmis í sama húsi og Valtýr Pétursson. Þá vinnur hún við skrifstofustörf, málar í frístundum, en fær síðan Dieter Roth, þegar hann kemur til landsins, til að leiðsegja sér í listinni,“ segir Heba Helgadóttir. Þær Ingibjörg eru sýningarstjórar fyrstu yfirlitssýningarinnar með verkum Eyborgar. „Hún fékk síðan hvatningu frá Dieter, Þorvaldi Skúlasyni og fleirum til að halda út til náms í París. Þar kemst hún í tæri við mjög spennandi strauma, en hafnar hún strax skólanámi, enda veit hún þá hvað hún vill, enda þroskuð kona og þá 35 ára gömul.“