Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Strangir fletir og skynvillur

Mynd:  / 

Strangir fletir og skynvillur

20.02.2019 - 13:16

Höfundar

Hringur, ferhyrningur og lína er heiti á fyrstu yfirlitssýningunni með verkum Eyborgar Guðmundsdóttur listmálara sem var opnuð á Kjarvalsstöðum á dögunum. Ferill Eyborgar spannaði sextán ár, en hún náði að þróa persónulegt myndmál sem einkenndist af einföldum formum og sjónarspili.

Eyborg Guðmundsdóttir (1924-1977) var um margt sérstæður listamaður í íslenskum listheimi. Ferillinn var alltof stuttur, en snarpur og Eyborg skildi eftir sig mörg geysigóð verk eins og glöggt má sjá á sýningunni. Verk hennar byggjast á fyrirmyndum geómetrískrar abstraktlistar þar sem sjónræn áhrif reglubundinna forma eru megináherslan, stíll sem kenndur er við op-list (e. optical). „Eyborg er listamaður sem tók íslensku strangflatarlistina lengra, með sínum persónulega hætti,“ segja sýningarstjórarnir tveir, Heba Helgadóttir og Ingibjörg Sigurjónsdóttir sem sögðu frá Eyborgu í Víðsjá á Rás 1. 

Óskabarn „abstraktelítunnar“

„Eyborg var mikið innan um elítu abstraktlistamannanna íslensku á sínum tíma, bjó til dæmis í sama húsi og Valtýr Pétursson. Þá vinnur hún við skrifstofustörf, málar í frístundum, en fær síðan Dieter Roth, þegar hann kemur til landsins, til að leiðsegja sér í listinni,“ segir Heba Helgadóttir. Þær Ingibjörg eru sýningarstjórar fyrstu yfirlitssýningarinnar með verkum Eyborgar. „Hún fékk síðan hvatningu frá Dieter, Þorvaldi Skúlasyni og fleirum til að halda út til náms í París. Þar kemst hún í tæri við mjög spennandi strauma, en hafnar hún strax skólanámi, enda veit hún þá hvað hún vill, enda þroskuð kona og þá 35 ára gömul.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Hringur - ferhyrningur - lína.

Alþjóðlegir straumar

Heba segir að Eyborg hafi valið sér spennandi leiðbeinendur í listinni í París á þessum árum. Henni var fljótlega boðin þátttaka í alþjóðlegum hópi þrjátíu listamanna, sem gekk undir nafninu Groupe Mesure og var stofnaður 1960 af Georges Folmer. Á árunum 1961-1965 sýndi hún víða um Evrópu með hópnum. „Þessir listamenn voru að reyna að fara með málverkið af striganum og víðar, út í almenningsrýmið og það gerði Eyborg líka.“

Á Parísarárunum naut Eyborg einnig reglulega leiðsagnar frumkvöðuls op-listarinnar, Victors Vasarely, sem hafði áhrif á áhuga hennar á beinum áhrifum markvissra forma og reglu á sjónskynjun og upplifun. „Í þessi sextán ár Eyborg síðan ákaflega ötull myndlistarmaður. Við teljum að eftir hana liggi hátt í tvö hundruð verk,“ segir Heba.

Samspil við salinn

Ingibjörg Sigurjónsdóttir á heiðurinn að smekklegri uppsetningu sýningarinnar í samstarfi við Hebu. „Ég nálgast þetta frá sjónarhóli myndlistarmannsins og mér finnst að séu forréttindi að fá að skyggnast svona inn í hugarheim Eyborgar. Þessi vinna er búin að vera mjög skemmtileg. Eyborg býr til mjög skýra framvindu í sínum ferli og það sést vel þegar maður gengur um sýninguna og áttar sig á tímaröðinni. Verkin hennar eru mjög dreifð um samfélagið, nokkur þeirra koma úr söfnum eða frá opinberum aðilum en flest eru þau í einkaeigu.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Geometrísk verk Eyborgar ríma mjög skemmtilega við loftið í salnum, sem þótti umdeilt á sínum tíma.

Sjónerting

Eyborg sneri aftur til Íslands 1965 og tók þátt í þó nokkrum samsýningum, auk þess að halda þrjár einkasýningar. Fyrsta einkasýning hennar var í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1965, önnur á Mokka 1966 en sú síðasta árið 1975 í Norræna húsinu. Á Mokka við Skólavörðustíg hangir líklega hennar frægasta verk úti í glugga (nema þegar það er á sýningum) en verkið er algjör fasti í sígildum andblæ kaffihússins.

Verk Eyborgar byggðust alla tíð á frumeiginleikum myndlistar og frumformum — hring, ferhyrningi, línu — út frá virkni þeirra innbyrðis og ertingu á sjóntaugina. Sú erting er greinileg á sýningunni á Kjarvalsstöðum, sem ber þetta heiti: Hringur, ferhyrningur, lína.

Allan feril sinn hélt Eyborg ótrauð áfram að rannsaka möguleika abstraktlistar og geómetríu og tók þannig þátt í því að þróa strangflatarmálverkið á ríkari hátt en nokkur annar íslenskur listamaður. En ferillinn var því miður allt of stuttur. Eyborg lést fyrir aldur fram árið 1977, aðeins rúmlega fimmtug.

Í ítarlegu viðtali við sýningarstjórana, Hebu Helgadóttur og Ingibjörgu Sigurjónsdóttur í Víðsjá, sem heyra má hér að ofan, má fræðast nánar um Eyborgu og þessa einkar forvitnilegu sýningu. Tónlistarbrotin í viðtalinu koma frá Archie Shepp.

Mynd með færslu
 Mynd:
Sýningin er einstakt tækifæri til að kynnast verkum Eyborgar.