Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Strandveiðikerfið verður endurskoðað

13.07.2016 - 08:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegsráðherra segir að til standi að endurskoða strandveiðikerfið. Kerfið sé þess eðlis að alltaf verði einhverjir óánægðir.

Kvótinn hefur ekki nýst á svæði D

Kvóti á svæði D, frá Hornafirði að Faxaflóa, var skorinn niður um 200 tonn á veiðitimabilinu í sumar og hefur ráðherra verið harðlega gagnrýndur fyrir það af sjómönnum á svæðinu og Ásmundi Friðrikissyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Gunnar gefur lítið fyrir gagnrýni Ásmundar. „Ástæðan fyrir því að aflaheimildir voru færðar af svæði D yfir á önnur svæði er sú að síðastliðin tvö ár hafa þær ekki nýst" segir Gunnar Bragi. " 100 til tæplega 200 tonn urðu eftir. Við vildum að þetta yrði nýtt allt saman og þess vegna var þetta fært á önnur svæði. Ég skil hins vegar ágætlega gremju sjómanna á svæði D þar sem núna er gott fiskirí og fleiri bátar á svæðinu o.þ.h.  En þetta er nú einu sinni þannig að þetta er ekki fullkomið kerfi þannig að það er voða erfitt að hafa alla ánægða.  En ástæðan fyrir því að þessar aflaheimildir voru færðar var sú  að menn voru ekki að nýta þær."

Skilur gremju sjómanna

Gunnar Bragi segist skilja gremju sjómanna á svæði D, en gefur lítið fyrir gagnrýni Ásmundur Friðrikssonar, þingmanns Sjálfsstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, um að ráðherra hafi með kvótskerðingunni rofið sátt sem náðst hafi um úthlutun strandveiðikvóta. „Þetta er bara bull í Ásmundi" segir Gunnar Bragi. „Það hefur aldrei verið nein sátt um úthlutun á þessum kvóta."
Kemur til greina að draga til baka þessa kvótaskerðingu?
„Þetta er vitanlega bara til eins árs. Síðan er úthlutað á ný.  Ég geri ráð fyrir að fara í endurskoðun á hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það er mjög flókið allt saman. Þar mun ég skoða lengd tímabilsins sérstaklega fyrir svæði D þannig að menn geti byrjað fyrr að veiða og hvort að hægt sé að úthluta þessu með einhverjum öðrum hætti en gert er í dag. Ég held að það verði aldrei neinn ánægður með þetta kerfi."