Strætó skilaði fálka á áfangastað

Mynd með færslu
 Mynd:

Strætó skilaði fálka á áfangastað

30.06.2013 - 20:22
Fálki nokkur varð fyrir þeirri óvenjulegu reynslu að fá far með strætisvagni úr Skaftafelli til Reykjavíkur. Fálkinn þurfti tvívegis að skipta um vagn og var á góðri leið með að klóra sig og gogga út úr pappakassa sem hann var í.

Fálkinn fannst dasaður í vegarkanti rétt hjá Skaftafelli. Leiðsögumenn komu með fálkann til aðstoðarþjóðgarðsvarðar í Skaftafelli sem ákvað að nýta sér það að tveir breskir sjálfboðaliðar voru á leið með strætisvagni til Reykjavíkur. Bretarnir, þau Gordon McKenzie og Lucy, voru nokkuð hissa á bóninni. „Hann sagði glettnislega við okkur að hann væri með farþega sem við þyrftum að fylgja til Reykjavíkur. Jæja, okkur þótti það hálfundarlegt, en allt í lagi. Svo komum við á staðinn og einn af þjóðgarðsvörðunum sagði: „Ætlið þið með fálkann?“

Þau geymdu fálkann sem var nokkuð önugur í pappakassa í strætisvagninum. „Hann kom höfðinu og annarri klónni út úr pappakassanum. Við reyndum að ýta honum aftur niður með handklæðinu. Við vildum ekki meiða hann en urðum að koma klónni, sem víst er hættulegust, aftur ofan í. Þá fórum við að óttast að hann hefði ekki nóg loft þannig að við götuðum kassann. Þá varð han reiður og ég varð hræddur um að hafa potað í fálkann. En þetta fór vel að lokum,“ sagði Gordon í samtali við Fréttastofu RÚV. 

Tvisvar þurfti að skipta um strætó, fyrst í Vík og svo á Selfossi. Þegar komið var til Víkur þurftu skötuhjúin að kaupa límband til að loka götunum á kassanum. 

Fálkinn, sem er kvenkyns, var fluttur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn þar sem fuglafræðingur skoðaði hann í dag. Tala þarf rólega við fuglinn til að róa hann. Grunur var um vængbrot en svo reyndist ekki vera. Hún með sár á öðrum vængnum, mögulega eftir að hafa flogið á. Þegar fálkakerlingin hefur verið böðuð tvisvar verður hún sett út í stórt búr með annarri kerlu sem hefur verið í garðinum í nokkrar vikur. 

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Fálki fór með strætó í Húsdýragarðinn