Strætó sinni áfram þjónustu við fatlað fólk

29.12.2015 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdaráð ferðaþjónustu fatlaðs fólks gagnrýnir harðlega hvernig staðið var að breytingum á þjónustunni. Þó er lagt til að þjónustan verði áfram hjá Strætó, en verði sjálfstæð eining þar.

Framkvæmdaráðið var skipað í mars. Þá hafði mikil skoðun farið fram á ferðaþjónustu fatlaðs fólks eftir að stúlka gleymdist í bíl ferðaþjónustunnar í margar klukkustundir.

Skýrslan staðfestir að margt fór úrskeiðis. Alvarlega hafi skort á samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og notendur þjónustunnar, reynslumiklum starfsmönnum sem höfðu víðtæka þekkingu á þörfum notenda, var sagt upp störfum með slæmum afleiðingum og ekki voru metnar þarfir fatlaðs fólks sem er með mismunandi fötlun. Þá hafði starfsfólk Strætó sem var þar fyrir ekki næga þekkingu á þörfum notenda.

Fram kemur að nokkrar úrbætur hafi þegar verið gerðar. Upplýsingamiðlun hafi verið bætt og búið er að koma að mestu í veg fyrir að margir bílar mæti á stað þar sem eingöngu er þörf á einum bíl, eins og dæmi voru um. Þá hafi starfsmönnum í þjónustuveri verið fjölgað.

Þrátt fyrir að þjónustan hafi farið illa af stað fyrst eftir að Strætó bs. tók við henni er framkvæmdaráðið þeirra skoðunar að hún eigi að vera þar áfram. Hún eigi hins vegar að vera í sjálfstæðri og afmarkaðri einingu. Forstöðumaður hennar eigi að stjórna ferðaþjónustunni í heild, ekki aðeins akstursþjónustunni.

Þá er einnig lagt til að samsetning bílanna verði endurskoðuð þar sem hún henti ekki í dag, sveitarfélögin ræði við fatlaða um þjónustuþörf þeirra og undirbúi bílstjórana betur.

Skýrslan var rædd í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir jól. Að sögn Páls Guðjónssonar, framkvæmdastjóra samtakanna, var niðurstöðum hennar vísað til umsagnar hjá samráðshópi forstöðumanna velferðarsviða sveitarfélaganna, og stjórnar Strætó. Að þeim fengnum muni stjórnin funda aftur um skýrsluna eftir áramót.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi