Strætó hefur gleymt að sækja eldri borgara

17.01.2015 - 14:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Dæmi eru um að bílstjórar akstursþjónustu Strætó gleymi að sækja eldri borgara sem hafa pantað far hjá fyrirtækinu. Formaður stjórnar Félags eldri borgara segir að aldraðir upplifi þetta sem lítilsvirðingu.

Félagi eldri borgara hafa borist fjölmargar kvartanir að undanförnu vegna akstursþjónustu Strætó. Dæmi er um að eldri borgari hafi þurft að sitja í bíl fyrirtækisins í nærri þrjá tíma.

Mikill styrr hefur staðið um akstursþjónustu fatlaðra eftir að Strætó tók þjónustuna að sér fyrir öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins að Kópavogi undanskildu um áramótin. Gagnrýnin beinist helst að framkvæmd þjónustunnar en einnig hafa viðskiptavinir hennar gagnrýnt nýja gjaldskrá Reykjavíkurborgar.

En það eru ekki bara fatlaðir sem eru óánægðir með þjónustuna, heldur líka aldraðir sem nýta sér þjónustu Strætó. Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, formaður stjórnar Félags eldri borgara, segir að fjölmargar kvartanir hafi borist síðan Strætó tók þjónustuna yfir. „Ég myndi telja að við séum búin að svara einhverjum 20-30 símtölum í þessari viku,“ segir Þórunn. Kvartanir séu ýmis eðlis. „Til dæmis að enginn hafi komið og að fólkið hafi beðið. Fólk hefur líka hangið í bílnum í tvo til þrjá tíma.“

Þurfti að fara yfir bæinn á enda þó heimilið væri á leiðinni

„Við erum með einn mann sem hefur tekið niður tímasetningar á þessu og hann var tvo og hálfan tíma. En hann hefði ekki þurft þess vegna þess að heimili hans var einhvers staðar á leiðinni. En þá átti bílstjórinn að mæta hinum megin í borginni. Og það gekk fyrir.“

Þórunn segir félagið hafa komið ábendingum á framfæri við Strætó og velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Því hafi verið svarað til að málið sé í athugun, en verið sé að þróa nýja þjónustu og nýtt tölvukerfi. Kynningarbæklingur verði sendur notendum þjónustunnar innan skamms. Þórunn segir hins vegar, að eldri borgarar upplifi þetta sem lítilsvirðingu. „Þú ert kannski búinn að klæða þig upp og á leið að fara að hitta þína vini í félagsmiðstöð eða einhverju álíka. En svo kemur enginn. Það gengur bara ekki.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi