Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Strætó fær harða útreið

18.05.2015 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirtaka Strætó á ferðaþjónustu fatlaðra fær harða útreið í nýrri skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar sem kom út í dag.

Stjórnendur Strætó höfðu ekki skilning á þörfum og sérstöðu viðskiptavina, þeir köstuðu áratuga reynslu á glæ með því að segja reyndum starfsmönnum upp og ekkert samráð var haft við hagsmunasamtök notenda.

Um síðustu áramót tók Strætó við rekstri Ferðaþjónustu fatlaðra fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þegar frá fyrsta degi virtust verulegar brotalamir á framkvæmdinni og í febrúar var ákveðið að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gera úttekt á innleiðingu og framkvæmd ferðaþjónustunnar.

Niðurstöður skýrslunnar eru harkalegur áfellisdómur yfir Strætó. Svo harkalegur að því er beinlínis haldið fram að undirritun samkomulagsins sé það eina sem hafi lukkast vel í ferlinu. Eftir það fer flest aflaga.

Vinnugleði starfsfólks Strætó var í algeru lágmarki. Rof kom í samráð við hagsmunasamtök notenda. Breytingarnar voru keyrðar í gegn á miklum annatíma um síðustu áramót í stað þess að bíða fram á sumar. Þetta höfðu hagsmunasamtök notenda margbent á, en ekkert var hlustað á þau.

Stjórnun breytinganna misfórst í stórum atriðum eftir að Strætó tók að sér reksturinn.  Enginn hafði yfirumsjón með breytingunum og með því að segja öllum starfsmönnum í ferðaþjónustunni upp í fyrra glataðist mikilvæg þekking á þörfum notenda. Áratuga reynslu var kastað á glæ án ástæðu.

Í skýrslunni segir að eftirlit velferðarsviða og velferðarráða sveitarfélaganna hafi brugðist og að þeir sem stýrðu breytingunum hjá Strætó hafi haft lítinn skilning á þörfum og sérstöðu viðskiptavina sinna.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV