Strætó aðhefst ekki vegna sofandi bílstjóra

Strætó, almenningssamgöngur
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Bílstjórar hjá Strætó meta sjálfir hvort þeir eru nógu vel hvíldir, samkvæmt vinnureglum. Ef bílstjóra finnst að hann sé ekki nægilega vel hvíldur, tekur hann ekki vaktina. Bílstjóri á leið 28 sem sofnaði undir stýri í Kópavogi um klukkan 18 í gær hóf vakt klukkan 16:30.

Haft var samband við lögreglu í gær þegar strætisvagninn hafði verið kyrrstæður óvenjulengi við umferðarljós á gatnamótum Fífuhvammsvegar og Hagasmára í Kópavogi. Samkvæmt gögnum Strætós var vagninn kyrr á ljósunum í um þrjár mínútur. Strætó segir að bílstjórinn telji sig hafa sofið í um eina mínútu og rankað við sér þegar bílstjóri í bíl við hliðina flautaði.

Lögregla lét bílstjórann blása í áfengismæli í Hamraborg og hafði svo ekki meiri afskipti af málinu og í svari við skriflegri fyrirspurn fréttastofu segir að Strætó aðhafist heldur ekki frekar vegna málsins.

Vakt bílstjórans hófst sem fyrr segir klukkan 16:30. Eftir atvikið treysti hann sér til að halda akstri áfram og lauk vaktinni á miðnætti. Hann vann sömu vakt daginn áður. Strætó hefur ekki upplýsingar um fjölda farþega í vagninum en talið er að þeir hafi ekki verið margir, þar sem vagninn sé yfirleitt fámennur á þessum tíma á sunnudögum.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi