Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stórsaga sem minnir á Íslendingasögur

Mynd: forlag / forlag

Stórsaga sem minnir á Íslendingasögur

13.05.2018 - 10:24

Höfundar

„Allt sundrast er að sumu leyti stórsaga, en um leið andsaga, því þegar bókin kom út fyrir sextíu árum var stórsaga hvíta mannsins enn ríkjandi; hið skelfilega ljóð Kiplings um byrði hans sem kvöð um að leggja undir sig óæðri kynþætti var pólitísk rétthugsun enn á þeim tíma.“ Gauti Kristmannsson las Allt sundrast eftir Chinua Achebe í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Það var kominn tími til að mest þýdda bók afrískra bókmennta bærist okkur á íslensku, 60 árum eftir að hún kom fyrst út. Við höfum reyndar vart fengið að sjá bókmenntir þessarar miklu álfu á íslensku hingað til. Nokkur ljóð hafa verið þýdd, ein skáldsaga eftir keníska skáldið Ngũgĩ wa Thiong'o, Kölski á krossinum, kom út fyrir fáeinum árum í þýðingu Kjartans Jónssonar og fátt annað, muni ég rétt. En nú hefur Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýtt þessa frægu bók sem komin er út í smekklegri útgáfu frá Angústúru, sem reyndar vísar nokkuð til útlits sígildra bóka frá vel þekktu frönsku forlagi, en það eru reyndar fleiri sem róa á þau mið.

Þetta er mikil saga um Igbo-þjóðina, eða öllu heldur einn ættflokk innan hennar í Nígeríu, sögð frá sjónarhorni kappans Okonkwo, föðurbetrungs með meiru, manns sem rís til metorða í samfélagi sínu og þarf að takast á við mótbyr í lífinu sem hendir hann og ættflokk hans. Frásagnarhátturinn minnir mig á Íslendinga sögur, hér er öll frásögnin utan frá í þriðju persónu, við vitum ekkert hvað fólkið hugsar, sjáum aðeins athafnir þess og orð. Ngũgĩ wa Thiong'o sagði mér reyndar einu sinni að hann hefði lesið Íslendinga sögur af miklum áhuga og fundist þær að mörgu leyti vera í samhljómi við afrískar bókmenntir. Kannski er það vegna frásagnarháttarins, sem einnig forðast alla dóma um persónurnar; háttalagi þeirra, góðu sem illu, er einfaldlega lýst og lesandanum er látið eftir að meta annað, það sem siðferðilegt er, fagurt eða ljótt.

Blátt áfram frásagnarháttur

Saga Okonkwo er um leið saga þróunar Vestur-Afríku um það leyti sem Vesturlönd tóku að leggja undir sig nýlendur í Afríku og gjörbreyttu menningu og siðum Afríkubúa, svo hastarlega og grimmdarlega að segja má að álfan sé enn í áfalli þess vegna. Við fylgjum Okonkwo gegnum vöxt hans til manndóms og metorða og lífinu í ættflokki hans, þar sem allar lýsingar á lífinu, landbúnaði, matreiðslu, trúarbrögðum eru eins og það sé allt sjálfsagður hlutur og engra skýringa sé þörf. Það er skotið inn í ýmsum setningum og þulum á máli Igboa og það er vel að Elísa Björg heldur þessu og einnig hinum blátt áfram frásagnarhætti án þess að reyna smygla skýringum inn í textann. Hún fer einnig gríðarvel með raunverulega hluti úr hinni framandi menningu með því að íslenska á tilgerðarlausan hátt það sem fjallað er um í hversdegi Igbo-fólksins, mjölrætur, pálmavín, kólahnetur og annað í þeim dúr, en einnig í því hvernig hún beygir nöfn og bætir við greini við framandi orð þannig að fljótlega verða þau þjál í huga og munni. Þetta er ekkert sjálfsagt og vísast fýla margir grön yfir því, en þetta er svo vel heppnað, að hver sá sem reyndi að gera þetta öðruvísi, yrði að láta í minni pokann í samanburði.

Sagan er sögð í þremur hlutum og er sá fyrsti fyrirferðarmestur, enda segir hann frá uppgangi Okonkwos og lífinu í þorpinu hans. Í öðrum hluta, þar sem hann þarf í útlegð eins og einnig þekkist í Íslendinga sögum, kynnist hann breytingum þegar trúboðar Vesturlanda koma inn á sviðið. Í þriðja hluta fáum við svo að kynnast fyrstu átökum innfæddra við hina freku innflytjendur sem telja að þeir fyrrnefndu eigi að laga sig að sínum siðum, ekki öfugt eins og við gerum t.d. kröfu um á Vesturlöndum þegar fólk kemur frá Afríku.

Íronískt fall samfélagsins

Titill á Allt sundrast er sóttur í eitt frægasta ljóð Williams Butlers Yeats sem heitir „The Second Coming“ á frummálinu eða „Endurkoman“ á íslensku, ljóð sem í og með snýst um dómsdag og upprisu í kristilegu samhengi og Yeats orti skömmu eftir heimsstyrjöldina fyrri og Páskauppreisnina á Írlandi. Ljóðið er hins vegar ekki beinlínis bjartsýnt og spyr þeirrar retorísku spurningar í lokin hvaða skepna það sé sem drattist til Betlehem til endurfæðingar þar. Þannig undirstrikar þessi titill mjög íronískt fall hins hefðbundna samfélags Igbo-fólksins og bókin skilur lesendur eftir með þá harmrænu tilfinningu að endurkoman hafi ekki verið það besta sem gat gerst, eins og sagan segir okkur raunar. Achebe fylgdi þessari bók svo eftir með tveimur, ef ekki fjórum, til viðbótar um örlög síns fólks andspænis hinu hvíta ofurefli sem engu eirir og gerir ekki enn.

Samt er þetta engin sveitasælusaga, patríarkinn Okonkwo gæti eins minnt okkur á Bjart í Sumarhúsum, hann er drifinn áfram af sama metnaði og hann er miskunnarlaus maður, ekki aðeins gagnvart óvinum, heldur einnig fjölskyldu sinni. Aðstæðum kvenna og konunum sjálfum eru gerð góð skil og við fáum sterka innsýn í veruleika þeirra og þjáningar, en einnig kraft þeirra og völd, til að mynda í gegnum trúarbrögðin. Með hinum hlutlausa tóni frásagnarinnar tekst Achebe að gera þetta harkalega líf þeirra enn harmrænna en væmin lýsing hefði nokkru sinni gert. Barsmíðar á konum og börnum og útburður barna, oftast tvíbura, koma fram eins og hluti af hversdagslífinu. Lái hver þeim sem vill sem hugsar með sér að kannski var bara gott að þessum siðum var breytt, að minnsta kosti ef því er þægilega gleymt með hvaða ofbeldi það gerðist.

Losa sig við byrði trúboðs og arðráns

Allt sundrast er að sumu leyti stórsaga, en um leið andsaga, því þegar bókin kom út fyrir sextíu árum var stórsaga hvíta mannsins enn ríkjandi; hið skelfilega ljóð Kiplings um byrði hans sem kvöð um að leggja undir sig óæðri kynþætti var pólitísk rétthugsun enn á þeim tíma. Það var kannski ekkert skrýtið að afrískur höfundur og menntamaður skyldi reyna að svara þeirri stórsögu með annarri, sagðri frá sjónarhorni þeirra sem urðu fyrir þessari svokölluðu byrði, sem var ekkert annað en ok og helsi á Afríkubúa og marga aðra. Þannig mátti kannski hefja þá andlegu sókn sem Salman Rushdie túlkaði síðar, að heimsveldið væri að skrifa til baka af krafti og átti vísast við að þannig gætu íbúar þess farið að losna við byrðina sem þeir höfðu borið frá því Vesturlandabúar lögðu undir sig stóran hluta heimsbyggðarinnar með trúboð og arðrán að leiðarljósi. Þeirri andspyrnu er langt frá því lokið, en orð eru til alls fyrst og þau eru löngu fram komin. Allt sundrast eftir Chinua Achebe var mikilvægt framlag til hennar sem allir Vesturlandabúar ættu að lesa, ekki aðeins sér til aukins skilnings, heldur einnig með mikilli bókmenntaánægju.