Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stórmerkur fornleifafundur í Þjórsárdal

12.10.2018 - 19:24
Bergsstaðir er nýjasta bæjarstæði landsins kallað. Það eru hins vegar meira en 900 ár síðan nokkur bjó þar en bæjarstæðið er nýfundið í Þjórsárdal. Þar fundust stórmerkir forngripir síðasta föstudag meðal annars Þórshamar úr sandsteini.  
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV

Aðeins einu sinni áður hefur Þórshamar fundist hér á Íslandi. Og ekki er vitað um aðra Þórshamra neins staðar, sem hoggnir eru í stein, eins og þessi. 

„Þetta eru allt gripir frá víkingaöld,“

segir Ragnheiður Gló Gylfadóttir fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands.

Þeir hafa varla verið kristnir sem borið hafa slíkt heiðið tákn um hálsinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Ragnheiður Gló Gylfadóttir

Þessi einstæði fundur er Bergi Þór Björnssyni frá Skriðufelli, innsta bænum í Þjórsárdal, að þakka, því hann fann bæjarstæðið:

„Mér fannst bara vera langt á milli rústa hérna og fór að leita bara svona að gamni mínu,“ segir Bergur Þór.

Honum þótti ekki ólíklegt að rústir væri að finna þarna því lækir voru sitthvorum megin við bæjarhólinn. Hann ólst upp við sögur af bæjunum, sem fóru í eyði í Þjórsárdal í Heklugosinu 1104. Langafi hans fann reyndar síðustu bæjarrústirnar af bæjunum 20, sem vitað var um, og það var árið 1920. Bergur sagði fornleifafræðingunum frá þessu. Þeir hafa síðustu vikur skráð fornminjar fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp og leitað upplýsinga hjá staðkunnum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Bergur Þór Björnsson

Ragnheiður Gló segir að þegar þau hafi komið á staðinn hafi þau fljótlega rekið augun í grjót sem gætu hafa verið undirstöður að veggjum skála. Þá hafi blasað við mannvistarleifar til dæmis öskuhaugur.

„Og hérna er bara dreif af ösku og brennd bein hérna um allt ef maður bara fer að rýna.“

Fornleifafræðingarnar hafa nefnt bæinn Bergsstaði í höfuðið á finnandanum. Í þeim hópi er bæði fólk frá Fornleifastofnun Íslands og minjavörður Suðurlands á vegum Minjastofnunar Íslands. Gripirnir góðu fundust á öskuhaugnum fyrir viku og eru nú komnir til Reykjavíkur: 

„Við fundum svo nefnt heinarbrýni. Það er svona brýni, sem hékk oft við belti, notað til að brýna til dæmis nálar. Og við fundum brot úr klébergsgrýtu eða potti. Kléberg er innflutt frá Noregi.“

Miðað við sveigjuna eða bogann á brotinu úr klébergsgrýtunni hefur potturinn verið 40 sentimetrar í þvermál.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Garðar Guðmundsson

Og víst er að það er miklu meira að finna á Bergsstöðum. Garðar Guðmundsson fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands fann til dæmis í dag úrgang úr járvinnslu. Hann lítur út fyrir að vera ósköp venjulegur steinn.

„Það er töluvert af þessu hérna upp í hlíðinni. Og það er mjög líklegt að hér hafi verið járnvinnsla að einhverju leyti og jafnvel smíði, járnsmíði.“

Án efa verða bæði jól og páskar hjá fornleifafræðingum, fái þeir tækifæri til þess að kanna til hlítar þetta nýjasta bæjarstæði frá landnámsöld í Þjórsárdal, okkur og menningunni til góða.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Steinaröðin gæti verið leifar af vegghleðslu.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
beinaleifar úr sótugum öskuhaugi.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Ekki steinar heldur affall úr járnvinnslu.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Gripirnir sem fundust 5. október.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV