Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stórlaxagenið ráði miklu um samsetningu stofna

10.02.2016 - 06:45
Mynd með færslu
Veiðifélögin telja að villta laxastofninum sé búin hætta ef laxeldisáform ná fram að ganga. Mynd: Ásgeir Jónsson - RÚV
„Menn finna nú alltaf leið til að karpa um lax,“ segir Sigurður Guðjónsson, sérfræðingur hjá Veiðimálastofnun, aðspurður hvort endanlega sé búið að svara spurningunni um hið fræga stórlaxagen. Nýlega birtist grein í tímaritinu Nature um rannsókn sem þykir sýna með skýrari hætti en áður að gen ráði því hvort lax skili sér í ár sem smálax eða stórlax.

Sérfræðingar jafnt sem veiðimenn hafa lengi deilt um það hvort að svokallað stórlaxagen ráði þar för eða fyrst og fremst umhverfisaðstæður. „Þarna koma fram mjög sterkar vísbendingar í þessa átt, að gen ráði þar för,“ segir Sigurður en hann hefur lengi talað fyrir verndun stórlaxa á þeim forsendum og vísar í rannsóknina á vef Veiðimálastofnunar. „Frá árinu 2002 höfum við mælst til verndunar á stórlaxi. Það hefur farið stigvaxandi og nú er sú verndun kominn inn í nýtingaráætlun flestra veiðifélaga.“

57 laxastofnar rannsakaðir

Rannsóknin um gen Atlantshafslax (Salmo salar) var gerð með því vinna erfðaefni úr 1.500 hreistursýnum af laxi sem safnað var úr 57 laxastofnum frá Noregi og Finnlandi. Genið sem ræður svo miklu um þróun mála kallast VGLL3. Gengið skýrir 39% af breytileikans í kynþroskaaldri lax og þar með stærð hans. Þar sem lax dvelur annað hvort eitt ár í sjó og kallast þá öllu jöfnu smálax eða tvö ár og snýr til baka sem stórlax. Til samanburðar skýrir fjöldi þekktra gena sem hafa áhrif á kynþroska manna aðeins um 3% af breytileikanum.

Stórlax gefi frekar af sér stórlax

„Í einfölduðu máli sýnir rannsóknin að arfhreinn stórlaxahængur eða stórlaxa hrygna verða stórlax,“ segir Sigurður sem þýðir að fiskurinn verður seinna kynþorska og dvelur því tvö ár í sjó. „Að sama skapi verður arfhreinn smálax alltaf smálax. En síðan er munur á kynjunum þegar um blöndun er að ræða. Þannig verður blandaður hængur smálax en blönduð hrygna verður stórlax.“

Sigurður segir þetta útskýra hvers vegna hængar séu oft stór hluti smálaxa sem skili sér í ár en hrygnur gjarnan stærri. Svo snýst þetta auðvitað um náttúruvalið á hverjum stað. Í sumum ám, svo sem í Elliðaánum, er nánast um hreinræktaðan smálaxastofn að ræða. Á öðrum stöðum er stórlax algengastur og í öðrum ám er um blöndu að ræða.“

Meirihluta af veiddum stórlaxi sleppt

Rannsóknin gefur því til kynna að því meira af stórlaxageninu sé í umferð því líklegra er að hærra hlutfall stofnsins skili sér sem stórlax. „Ef við drepum allan stórlax missum við því mjög mikilvægt erfðaefni úr stofninum.“

Í grein Sigurðar á vef Veiðimálastofnunar segir jafnframt að vel hafi tekist til við sleppingar á stórlaxi síðan átak Veiðimálastofnunar hófst árið 2002. Árið 2014 hafi 72% af stórlaxi verið sleppt aftur en Sigurður telur það mikilvægt skref í því að reyna vernda þennan sérstaka erfðaþátt. Sigurður segist ekki vita til þess að sambærilegar rannsóknir hafi verið gerðar á erfðamengi silunga. „Urriði og lax eru náskyldir en ég veit ekki til þess nei.“

Silungsveiði sé líka sjálfbær

Hér á landi gilda jafnan strangari reglur þegar kemur að sleppingu laxa en silungs. Er það rökrétt miðað við hrygningarmynstur fiskanna?

„Megnið af þeim laxi sem gengur í íslenskar ár hrygnir og drepst. Það eru vissulega eitthvað hlutfall er hoplax og jafnvel endurgöngulax en stærstur hluti drepst að lokinni hrygningu. Silungur sem gengur í sjó þarf yfirleitt að ganga nokkrum sinnum til að ná kynþroska. Svo getur hann hrygnt oftar en einu sinni og gengið nokkrum sinnum til sjávar eftir að kynþroska er náð. Því þarf að huga að því að sjógöngufiskur getur verið viðkvæmur fyrir veiði.“ Þar sem auknar líkur séu á því að hann veiðist eða drepist áður en fiskurinn hefur skilað sínu til stofnsins

Sigurður segir markmið laga um lax- og silungsveiði miða að því að veiðinýting skuli vera sjálfbær. Því þurfi að ganga gætilega um silungsveiðiár líkt og laxveiðiár.