Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Stórfelld sýndarviðskipti

05.05.2011 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Kaupþing stóð sjálft á bak við meirihluta allra viðskipta með eigin hlutabréf misserin fyrir hrun, í gegnum stórfelld sýndarviðskipti. Rannsóknin á bankanum bendir til mörg hundruð milljarða markaðsmisnotkunar sem nær allt aftur til sameiningarinnar við Búnaðarbankann.

Sala á hlutum ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hófst fyrir aldamót en lauk þegar S-hópurinn svokallaði keypti kjölfestuhlut árið 2003. Skömmu síðar sameinaðist bankinn Kaupþingi en féll að lokum haustið 2008 eftir, að því er virtist, mikið uppgangsskeið.


Í sjónvarpsfréttum í janúar 2009 var greint frá grunsemdum um að Kaupþing hefði sjálft staðið á bak við kaup Katarmannsins Al-Thani á fimm prósenta hlut í bankanum stuttu fyrir hrun. Skömmu síðar var upplýst um gríðarmikil viðskipti bankans með eigin hlutabréf í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Rannsókn Fjármálaeftirlitsins og Sérstaks saksóknara bendir til viðamikillar markaðsmisnotkunar og sýndarviðskipta. Bankinn hafi keypt upp eigin bréf á markaði en selt þau svo aftur í stórum slumpum, eins og í Al-Thani málinu. Bankinn lánaði og engin önnur veð voru tekin en bréfin sjálf. Tilgangurinn, að halda uppi eftirspurn og þar með verði hlutabréfanna. Þannig hafi markaðurinn verið plataður.


En rannsóknin bendir líka til þess að myndin sé mun dekkri en menn hugðu og svindlið hafi staðið allt frá sameiningunni við Búnaðarbankann 2003, þótt steininn hafi fyrst tekið úr haustið 2006. Eftir það virðist bankinn sjálfur hafa staðið á bak við allt að 80% prósent allra viðskipta með eigin bréf.


Með því, eins og rannsakendur hafa gert, að skoða eingöngu þau kaup og sölu tilboð í Kauphöllinni sem bankinn sjálfur kom sannarlega ekki nálægt, kemur í ljós allt önnur mynd. Fullkomið verðhrun. Miðað við þetta hefði gengið á hlutabréfunum átt að vera nær sjö, en ekki sjö hundruð, þegar bankinn féll.