Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stórauknar líkur á stórskipahöfn í Finnafirði

11.04.2019 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, segir að líkurnar á að stórskipahöfn verði að veruleika í Finnafirði hafi stóraukist. Samstarfssamningar um verkefnið voru undirritaðir á Þórshöfn í morgun.

Fulltrúar Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, þýska félagsins Bremenports og verkfræðistofunnar Eflu skrifuðu undir samninga um þróun og uppbyggingu hafnarstarfsemi í Finnafirði.

Ágúst Ólafsson fréttamaður var á staðnum og ræddi við Elías Pétursson skömmu eftir undirritun. Elías segir að nú taki við að ljúka stofnun félaga um verkefnið og þar með sé það komið með kennitölu. „Nú fara menn með kerfisbundnum hætti í það að þróa verkefnið sjálft og koma því áfram,“ segir Elías. 

Þýðir þetta að hér verði í framtíðinni byggð stórskipahöfn? „Þetta stóreykur líkurnar á því. Það er alveg morgunljóst að þegar menn skrifa undir svona samning þá gera þeir það af því að þeir eru búnir að öðlast mikla trú á því að það geti eitthvað gerst í Finnafirði. Svo veit maður náttúrulega aldrei hvað gerist í framtíðinni, en þetta stóreykur líkurnar,“ segir Elías. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Fulltrúar sveitarfélaga og fyrirtækja sem tengjast verkefninu

Í fréttatilkynningu frá Langanesbyggð kemur fram að við undirritun hafi verið stofnað þróunarfélagið FFPD sem er falið að afla sérleyfishafa til að hefja starfsemi innan svæðisins. Bremenports á 66% hlut í félaginu, Efla 26% og sveitarfélögin 8% saman. Þá þarf einnig að stofna rekstrarfélag hafnarinnar, í fullri í eigu Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps. 

Markmiðið er að byggja upp alþjóðlega stórskipahöfn og iðnaðar- og þjónustusvæði sem tengi saman Asíu, austurströnd Bandaríkjanna og Evrópu. „Að hluta til er þetta verkefni komið til vegna þess að það er að opnast siglingaleiðin norðurfyrir, sem styttir mjög leiðina frá Asíu. Menn sjá bæði möguleika í umskipun, þar sem kæmu mjög stór skip hingað og yrði umskipað í smærri skip sem væru vítt og breitt bæði í Evrópu og Ameríku. Það er einn af möguleikunum sem menn eru að horfa á í verkefninu, en þeir eru nokkrir aðrir,“ segir Elías.  

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Frá undirritun í morgun
jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV