„Stóra verkefnið að koma á alvöru stöðugleika“

06.10.2017 - 20:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er enginn stöðugleiki fólginn í því að láta innviði landsins mæta afgangi í miðju góðæri. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á landsfundi flokksins í dag. Hún gagnrýndi fráfarandi ríkisstjórnarflokka í ræðu sinni, en útilokar ekki samstarf við nokkurn flokk eftir kosningar.

Landsfundur Vinstri grænna hófst á Grand Hótel í Reykjavík í dag og stendur fram á sunnudag. Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup er flokkurinn með mest fylgi þeirra flokka sem bjóða fram fyrir næstu alþingiskosningar, eða 25 prósent. Í ræðu sinni gagnrýndi Katrín sýn þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokks á stöðugleika og sagði að hann fáist ekki með gamaldags frekjupólitík.

„Stóra verkefni næstu ríkisstjórnar er að koma á alvöru stöðugleika fyrir fólkið sem býr í þessu landi. Þegar ég segi alvöru stöðugleiki, þá á ég við öfluga uppbyggingu fyrir atvinnulífið og byggðirnar, menntakerfið og heilbrigðisþjónustuna, aldraða og öryrkja og svo mætti lengi telja.
Það er enginn stöðugleiki fólginn í því að láta innviði landsins mæta afgangi í miðju góðæri. En það er nú samt einmitt það sem síðustu tvær ríkisstjórnir hafa gert,“ sagði Katrín í ræðu sinni. 

Þá beindi hún spjótum sínum að fráfarandi ríkisstjórn. „Síðasta ríkisstjórn hrökklaðist frá og við heyrum skýra kröfu frá fólkinu í landinu sem vill breytta tíma, nýja ríkisstjórn sem setur hagsmuni almennings í forgang. Ísland þarf trausta ríkisstjórn sem vill gera betur fyrir fólkið í landinu og springur ekki vegna vantrausts og leyndarhyggju löngu áður en kjörtímabilið klárast.“

Aðspurð að því hvort gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn megi túlka á þann veg að Vinstri grænir vilji síður vinna með þeim flokki sagði Katrín að það væri ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn væri langt frá þeim málefnalega séð. „Okkar sýn á þetta er að við viljum leiða góða ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu sem ræðst í þessa nauðsynlegu uppbyggingu sem almenningur í landinu kallar eftir.

Þannig að þú útilokar engan flokk frá samstarfi? „Nei, enda snýst þessi spurning frekar um það hverjir vilja vinna með okkur að þessum mikilvægu markmiðum.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi