Stór aurskriða hefur fallið úr Ímatindi í Vaðlavík milli bæjanna Ímastaða og Vaðla og lokar veginum. Ekki er vitað hvenær skriðan féll en vélsleðamenn sáu hana fyrst á föstudaginn langa.
Sigurbjörn Jónsson á Eskifirði myndaði skriðuna og telur að hún sé 200 metra breið og að 2-3 metra moldarlag liggi á veginum þar sem skriðan féll. Vaðlavík eða Vöðlavík er á milli Reyðarfjarðar og Gerpis, austasta odda landsins. Enginn er í víkinni á veturna en fólk dvelur þar í bústöðum á sumrin. Ófært er þangað á þessum tíma nema fyrir mikið breytta jeppa.