Stór áherslumál ráðherra fyrir þinglok

19.04.2016 - 21:23
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar leggja áherslu á að þingið ljúki við mörg stór og flókin mál áður en gengið verður til kosninga í haust. Forgangslisti ríkisstjórnarinnar verður kynntur á næstu dögum.

Þegar tilkynnt var að kosningum yrðu flýtt til haustsins kom jafnframt fram sá vilji ríkisstjórnarinnar að þingið klári ákveðin forgangsmál. Listi yfir þessi forgangsmál ríkisstjórnarinnar er enn ekki kominn fram en hver ráðherra hefur hins vegar tekið saman þau mál sem hann eða hún vill að verði samþykkt fyrir þinglok.

Afnám hafta, húsnæðismál og almannatryggingar

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru þetta helstu málin, en listinn er ekki tæmandi: Fjármálaráðherra leggur mesta áherslu á þau frumvörp sem tengjast afnámi hafta, sem og ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Hún var samþykkt í ríkisstjórn í morgun og verður lögð fyrir þingið í framhaldinu. Þá vill fjármálaráðherra klára lokafjárlög og frumvarp um lækkun tryggingagjalds.

Félags- og húsnæðimálaráðherra leggur áherslu á þrjú húsnæðismálafrumvörp - um almennar íbúðir, húsaleigulög og húsnæðisbætur. Auk þess er lögð áhersla á frumvarp um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Það byggir á niðurstöðu starfshóps sem var kynnt fyrr í vetur en frumvarpið er ekki komið fram á þingi.

Búvörusamningar, millidómstig og samgönguáætlun

Innanríkisráðherra leggur áherslu á að þingið ljúki við samgönguáætlun, frumvörp um millidómstig, heildarlög um útlendinga og lög um eftirlit með störfum lögreglu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur áherslu á frumvarp um búvörulög sem er lagt fram vegna búnaðarsamninga.

Skógræktarstofnun og geðheilbrigðisáætlun

Heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að þingið samþykki lög um þak á greiðsluþátttöku og tillögu um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum.

Umhverfisráðherra leggur áherslu á frumvarp um nýja Skógræktarstofnun og á frumvarp um breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.

LÍN og þjóðaröryggisráð

Menntamálaráðherra leggur áherslu á frumvarp um endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Frumvarpið er í kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu og hefur ekki verið lagt fram á þingi.

Utanríkisráðherra mun leggja fram á þingi frumvarp um þjóðaröryggisráð og þingsályktun um þróunarsamvinnustefnu en hefur ekki kynnt forgangsröðun.

Ekki er víst að öll þessi mál komist á lista ríkisstjórnarinnar en samkvæmt heimildum fréttastofu verða forgangsmál hennar kynnt á næstu dögum.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi