Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stopult farsímasamband á rýmingarsvæði

11.01.2015 - 23:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Lítið og jafnvel ekkert farsímasamband er á sumum bæjum sem þyrfti að rýma ef stíflur Kárahnjúkavirkjunar bresta. Landsvirkjun hefur í tvígang ráðist í úrbætur en bændur telja það ekki nóg.

Farsímasamband er reyndar mjög gott á mörgum bæjum á Jökuldal en ekki öllum. Á Skjöldólfsstöðum næst sjaldan samband.

„Í góðum skilyrðum er hægt bæði við eldhúsgluggann og við útidyrnar. Þá er hægt að tala stundum. Oft og oftar er náttúrulega ekki hægt að tala þó maður heyri hringinguna. Þá er ekkert samband hér inni,“ segir Vilhjálmur Þ. Snædal, bóndi á Skjöldólfsstöðum.

Það sama gildir um nokkra bæi í Jökulsárhlíð og Fljótsdal. Þessa staði þyrfti mögulega að rýma ef merki væru um stíflurof við Kárahnjúka en reyndar yrðu allar líkur á löngum fyrirvara og heimsíminn gæti dugað. Landsvirkjun segist hafa staðið við samkomulag við sveitarfélagið með því að setja upp tvö möstur á Jökuldal. Bændur telja að sér hafi verið lofað góðu farsímasambandi á fundum þar sem rýming var rædd.

„Auðvitað kemur Hálslón ekkert í öldu hérna innan dalinn allt í einu. Það hvarflar ekki að mér. Mér finnst bara að gömul loforð eigi að standa,“ segir Vilhjálmur.

Landsvirkjun tók ábendingar um dauða punkta til greina og árið 2007 réðist hún í mælingar og frekari úrbætur. „Nú er ekki neitt. Og svo þarf maður stundum að fara hérna niður að skúr. Og þá er 100% samband niðri á vegi eða niður við veg,“ segir Vilhjálmur. Enn næst ekki samband sumstaðar innan bæja og í mörgum fjárhúsum sem eru vinnustaðir bænda. „Hér er ekki til punktur. Það þýðir svo sem ekkert að vera með símann í höndunum þegar maður veit að það er ekkert samband. Það er ekki til neins. Best að hafa hann í vasanum.“

Svar Landsvirkjunar við fyrirspurn Fréttastofu RÚV: 

„Landsvirkjun hefur lagt í verulegar fjárfestingar varðandi styrkingu GSM dreifingar í Jökuldal og á Norður-Héraði. Þar var Landsvirkjun að uppfylla ákvæði samkomulags sem gert var á milli Landsvirkjunar og Virkjunarnefndar Norður-Héraðs (dags. 10. september 2002). Landsvirkjun byggði upp fjarskiptastaðina Háurð og Skjöldólfsstaðahnjúk ásamt því að styrkja fjarskiptaaðstöðu Símans að Brúarási, gagngert í þeim tilgangi að uppfylla ákvæði í fyrrnefndu samkomulagi.  Landsvirkjun framseldi síðar Símanum hf. fjarskiptamannvirkin að Háurð og á Skjöldólfsstaðahnjúki með þeim kvöðum að fyrirtækið ræki þar GSM þjónustu svo lengi sem fyrirtækið ræki slíka þjónustu hér á landi og að föst búseta væri í Jökuldal.

Í kjölfar athugasemda ábúenda í Jökuldal kostaði Landsvirkjun úttekt á GSM dreifingu á svæðinu snemma á árs 2007.  Í kjölfar þeirrar úttektar og í þeim tilgangi að koma enn frekar til móts við óskir ábúenda og sveitarstjórnar Norður-Héraðs (nú Fljótsdalshérað), gerði Landsvirkjun viðauka við eldri samning Símans um yfirtöku fjarskiptastaðanna á Háurð og Skjöldólfsstaðahnjúki. Sá viðauki átti að stuðla að enn frekari endurbótum GSM þjónustu á svæðinu, endurbætur sem eru verulega umfram þær skuldbindingar sem fyrirtækið hafði undirgengist með samkomulagi Landsvirkjunar og Virkjunarnefndar Norður-Héraðs frá árinu 2002. Síminn lét lagfæra dreifingu á svæðinu með aðgerðum á Brúarási, Surtarkolli og með því að setja GSM móðurstöð í aðstöðu RÚV ofan bæjarins Merkis. Með fyrrnefndum viðauka telur Landsvirkjun sig hafa uppfyllt skuldbindingar sínar varðandi málið og ríflega það. 

Hvað varðar viðbrögð við mögulegu stíflurofi þá eru viðbragðsáætlanir sem og vöktun mannvirkja Landsvirkjunar við Hálslón mjög viðamiklar. Fylgst er bæði sjónrænt sem og rafrænt með ýmsum þáttum s.s. leka, jarðskjálftavirkni, hugsanlegum sprunguhreyfingum, grunnvatnshæð, spennu og gruggmælingum. Eigi sér stað sá atburður sem kann að benda til fráviks er það kannað strax. Niðurstöður eftirlits á rekstrartíma mannvirkisins hafa ekki sýnt nein merki þess að neitt óeðlileg hafi átt sér stað og allar mælingar innan viðmiðunar. Líklegast er að aðdragandi hugsanlegs stíflurofs væri talinn í dögum eða vikum og því góður tími til rýminga. Almannavarnir bera ábyrgð á rýmingum og gera rýmingaráætlanir.“