Stofnfáreigendur SpKef afar ósáttir

26.05.2011 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Stofnfjáreigendur í SpKef fá ekki aðgang að nýrri skýrslu um starfshætti hins fallna sparisjóðs þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis. Fjármálaeftirlitið ber við bankaleynd og við það eru stofnfjárhafarnir afar ósáttir.

Endurskoðunarfyrirtækið PWC gerði könnun að beiðni Fjármálaeftirlitsins og slitastjórnar SpKef á starfsháttum hins fallna Sparisjóðs. Skýrslan er nú tilbúin og hefur verið afhent Fjármálaeftirlitinu og slitastjórn bankans. Stofnfjárhafar í SpKef fá hins vegar ekki aðgang að skýrslunni. Þórunn Einarsdóttir, formaður samtaka stofnfjárhafa, segir lögfræðinga fjármálaeftirlitsins bera við bankaleynd og við það séu stofnfjárhafar verulega ósáttir.

„Það hvílir algjör bankaleynd yfir þessari skýrslu og rannsókn en þar sem slitastjórnin borgar fyrir skýrsluna þá töldum við sem kröfuhafar okkur eiga rétt á að fá hana,“ segir hún. Þórunn telur skýrsluna geta varpað ljósi á stöðu sparisjóðsins á þeim tíma sem farið var í stofnfjárútboð og hvort grunur stofnfjárhafa um lögbrot í starfsemi bankans sé á rökum reistur. Skýrslan geti þannig styrkt stöðu stofnfjárhafa sem sjái nær enga möguleika á endurheimtum úr þrotabúi hins fallna banka.

Stofnfjárhafar í SpKef halda aðalfund sinn í kvöld. Þar verður borið upp bréf til samþykktar sem sent verður á alla þingmenn og ráðherra. „Í þessu bréfi kemur fram í fyrsta lagi að Alþingi standi við það loforð að rannsókn á sparisjóðakerfinu fari fram og í öðru lagi að á meðan á þessari rannsókn stendur fái stofnfjárhafar frið með lánin.“