Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stofna votlendissjóð fyrir loftlagsaðgerðir

30.01.2018 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Talið er að yfir 70 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi komi frá framræstu votlendi. Einn af stofnendum nýs votlendissjóðs segir að ekki sé hægt að tala um loftlagsaðgerðir á Íslandi fyrr en farið verði í votlendið. Endurheimt votlendis sé ekki á ábyrgð landeigenda eða bænda heldur samfélagsins alls og lykilatriði í loftlagsaðgerðum Íslendinga.

Mikið af framræstu landi ekki í notkun

„Við losum 16,7 milljónir tonna, við Íslendingar, og af þeim eru 11 milljónir komnar frá framræstu landi. Og af þeim 11 milljónum sem eru frá framræstu landi eru 10 milljónir sem eru ekki neinum til gagns, ekki ræktun, bændur og landeigendur eru ekkert að nota þetta. Og það eru þær 10 milljónir tonna af CO2 ígildum sem við ætlum að stöðva,“ segir Eyþór Eðvaldsson, einn af þeim sem standa fyrir stofnun votlendissjóðsins. Með átaki í endurheimt votlendis á að loka skurðum og koma vatni aftur á mýrar.

Samfélagsleg ábyrgð

Áður fyrr fengu bændur styrki til að ræsa landið fram, sem þeir gerðu í góðri trú, en við það að ræsa fram mýrar rotna þær og gróðurhúsalofttegundir losna. Eyþór segir að með tilkomu sjóðsins þurfi landeigendur ekki að bera kostnað að endurheimt votlendis sjálfir, enda hleypur heildarkostnaðurinn á milljörðum, heldur er fyrirtækjum gefinn kostur á að sýna samfélagslega ábyrgð: „Þetta er okkar allra, þetta. Þetta er ekki vandamál bænda eða landeigenda heldur alls samfélagsins.“

Samstarfsverkefni fjölmargra

Að votlendissjóðnum standa fjölmargar stofnanir, fyrirtæki, rannsóknasetur og náttúruverndarsamtök og fleiri. Þá er unnið er að því að ná samningum við ríkið um að fjármagna eina stöðu við sjóðinn. Hlutverk sjóðsins er að safna fjárframlögum frá fyrirtækjum til að fjármagna endurheimt votlendis sem og starfa með þeim stofnunum sem vinna að því verkefni, eins og Landbúnaðarháskólanum, Landgræðslunni, Vegagerðinni, sveitarfélögum og landeigendum. Áætlað er að verkefnið hefjist í Fjarðabyggð.

„Það verður aldrei talað um loftslagsaðgerðir að neinu marki á Íslandi fyrr en við förum í votlendið,“ segir Eyþór.