Stofna starfshóp vegna #metoo

11.09.2018 - 12:39
Mynd með færslu
Frá fundi #metoo aðgerðahópsins. Mynd: Velferðarráðuneyti - Aðsend mynd
Skipaður hefur verið starfshópur á vegum velferðarráðuneytis til að fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir einelti, kynferðislegt og kynbundið áreiti og ofbeldi á vinnustöðum

Á vinnufundum með fulltrúum atvinnulífsins hafa komið fram ýmsar hugmyndir um úrbætur, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Einnig hafa komið fram hugmyndir um fræðslu til fyrirtækja, heimasíðu með aðgengi að upplýsingum um málefnið og leiðbeiningar til stjórnenda um stefnumótun og aðgerðir gegn einelti og kynbundnu áreiti á vinnustöðum og verður þeim komið til hópsins. 

Hópurinn kom saman til fundar í gær og vann að útfærslum á hugmyndunum. Hópurinn kemur aftur saman í byrjun næsta árs til að meta hvernig til hafi tekist af hálfu annarra vinnuhópa sem skipaðir hafa verið af hinu opinbera og til að þrýsta á frekari aðgerðir ef ástæða þykir til. 

Hópinn skipa fulltrúar Jafnréttisstofu, ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, Samtaka atvinnulífsins, fjármálaráðuneytis, Félags forstöðumanna ríkisins, VIRK, Félags kvenna í atvinnulífinu, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Bjarkarhlíðar, Kvenréttindafélags Íslands, Sálfræðingafélags Íslands, Félags mannauðsstjóra og fulltrúar Vinnueftirlitsins.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi