Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Stöðvuðu pylsusmygl með Norrænu

28.05.2013 - 20:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Þýskir ferðamenn sem komu með ferjunni Norrænu í morgun verða að gera sér íslenskar pylsur að góðu. Tollverðir á Seyðisfirði kyrrsettu talsvert af niðursoðnum pylsum, bjór og öðru nesti sem rútubílstjórar hugðust fara með inn í landið og selja farþegum.

Ferjan Norræna kom til Seyðisfjarðar í morgun en hópar þýskra ferðamanna hafa vakið athygli undanfarið. Þeir koma með ferjunni á rútum, fara í stuttar dagsferðir og sofa í ferjunni. Heimamenn ýmist dást að sparseminni eða undrast hve léttir Þjóðverjarnir virðast á fóðrum. Sú ráðgáta hefur nú verið leyst.

,,Það virðist tíðkast úti í Evrópu að bílstjórar á rútubílum drýgi tekjur sínar með því að selja varning um borð. Mat og drykk. Bjór, léttvín, kjör og svo eru þeir með niðursoðnar pylsur sem þeir steikja um borð í rútunum, eru með grill um borð og selja farþegunum að mér skilst“ segir Árni Elísson, tollvörður á Seyðisfirði. Hann segir ekki leyfilegt að koma með bjór, pylsur, áfengi eða aðra matvöru til landsins og borga ekki aðflutningsgjöld. ,,Þannig að þeir verða að skilja þetta eftir hjá okkur. Þeir voru ekki með þetta falið í bílunum og tilgreindu okkur frá þessu við komu þannig að þeir fá þetta afhent á morgun við brottför.“