Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Stöðvar alla vinnu við aðildarumsókn

29.05.2013 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, fer á fund stækkunarstjóra Evrópusambandsins eftir hálfan mánuð til að útskýra stefnubreytingu íslenskra stjórnvalda til aðildarviðræðna sem ákveðið var að gera hlé á. Allri vinnu í utanríkisráðuneytinu vegna viðræðnanna hefur verið hætt.

Ný ríkistjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks ákvað í stefnuyfirlýsingu sinni að hlé yrði gert á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Viðræðum er lokið um 11 samningskafla en viðræður stóðu yfir um 16 kafla. Tæp fjögur ár eru síðan Alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB og hefja viðræðurnar. Nú verða þær hins vegar stöðvaðar og gerð úttekt gerð á stöðu þeirra sem síðar verður lögð fyrir Alþingi.

Gunnar Bragi segir Alþingi ekki þurfa að samþykkja slíkt hlé. „Nei, ég held að við hljótum að hafa sömu heimild til að gera hlé á þessum viðræðum eins og fyrri ríkisstjórn ákvað að gera hlé. Ég held reyndar að það hlé sem hún gerði hafi reyndar ekki alveg virkað að fullu. En það er alveg klárt að okkar mati að við getum gert þetta.“

Gunnar Bragi ráðgerir að fara utan um miðjan júní til að hitta Stefan Fühle, stækkunarstjóra sambandins, og gera honum formlega grein fyrir breyttri stefnu íslenskra stjórnvalda. „Og við leggjum bara mikla áherslu á að þetta sé gert í sem mestu og bestu sambandið við fulltrúa Evrópusambandsins því þetta eru nú einu sinni okkar helstu samstarfsþjóðir innan þessa sambands.“

Utanríkisráðherra tilkynnti starfsmönnum ráðuneytisins fyrir helgi að þeir ættu ekki að leggja meiri vinnu í aðildarviðræðurnar. „Það er bara eðlilegt að það sé gert þangað til, í það minnsta að við erum búnir að útskýra þessa stefnubreytingu fyrir Evrópusambandinu. Og það er alveg ljóst að þegar ríkistjórnin talar um að það verði gert hlé á þessum viðræðum þá þýðir það að sjálfsögðu að það verður hlé á vinnunni sem er verið að vinna. Og í framhaldinu af fundum með fulltrúum Evrópusambandsins og svona endurmati á því þegar við komum heim, þá verða aðrar ákvarðanir teknar í framhaldinu.“