Stöðva þurfi blóðsúthellingar hersins

17.09.2017 - 18:01
Erlent · Asía
epa06039530 United Nations Secretary-General Antonio Guterres talks with reporters during a press conference at United Nations headquarters in New York, New York, USA, 20 June 2017.  EPA/JUSTIN LANE
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að nú sé runnið upp síðasta tækifæri Aung San Suu Kyi, leiðtoga Mjanmar, til að stöðva blóðsúthellingar gegn Róhingja-múslimum. Guterres hefur undanfarna daga hvatt Suu Kyi til að bregðast við án árangurs.

Min Aung Hlaing, hershöfðingi í Mjanmar, sagði í dag að það væri Róhingja-múslimum að kenna að hundruð þúsunda þeirra hefðu flúið yfir til Bangladess. Róhingjar hafi aldrei verið þjóðernishópur og það væru öfgamenn úr þeirra hópi sem væru að reyna að ná stjórn á Rakína-héraði í norðurhluta Mjanmar. 

Aung San Suu Kyi átti að halda ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í þessari viku en ætlar þess í stað að flytja ræðu í sjónvarpinu í Mjanmar á þriðjudag. Hún hefur lítið tjáð sig um neyðarástandið í Rakína-héraði þaðan sem yfir 410 þúsund Róhingjar hafa flúið yfir landamærin til Bangladess, að sögn Telegraph.

Mjanmarski herinn er sakaður um að ráðast gegn almennum borgurum í Rakína-héraði, þannig að fólk hafi séð þann einn kost að flýja. Stjórnvöld neita þessu og segja herinn hafa verið að bregðast við árás skæruliða.

90 prósent þjóðarinnar í Mjanmar eru búddistar. Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að árásir gegn Róhingja-múslimum í Mjanmar jaðri við þjóðernishreinsanir.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi