Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stöðugleiki í Hrunamannahreppi

Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Pólitískur og efnahagslegur stöðugleiki hefur einkennt líðandi kjörtímabil í Hrunamannahreppi, segir sveitarstjórinn. Hann segir engin hitamál eða ágreining vera hjá íbúum í sveitarfélaginu. Áframhaldandi þróun og uppbygging eru meðal þess sem er í forgrunni. Sveitarstjórinn telur að umræðan um þjóðgarð á hálendinu verði mesta áskorun þeirra sem taka við.

Tveir listar í framboði

Tveir listar bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga í komandi kosningum. D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra og H-listinn. Jón Bjarnason er oddviti D-listans og Halldóra Hjöleifsdóttir leiðir H-listann. Jón G.Valgeirsson, sveitarstjóri í Hrunamannahreppi, segist ekki búast við því að miklar breytingar verði á sveitarstjórninni. Hann segir íbúa sveitarfélagsins rólega yfir kosningunum. 

Húsnæðismál í brennidepli 

Jón segir samgöngumál alltaf vera í umræðunni. Húsnæðismál hafa einnig verið brennidepli. „Húsnæðismál snúa að okkur eins og öllum, það hefur skort íbúðarhúsnæði" Á þessu ári hefur töluvert verið byggt í sveitarfélaginu og vonast er eftir að það leiði til fólksfjölgunar. 

Vilji er í sveitarfélaginu til að halda áfram góðri þjónustu við barnafjölskyldur. Hann segir engan ágreining um skólamál og þau vera í nokkuð góðu horfi. Börn fá leikskólapláss í Hrunamannahreppi frá tólf mánaða aldri og segir Jón það áhersluatriði að halda áfram góðri þjónustu við barnafólk. Hann segir samstarf við nágrannasveitarfélög einnig ganga vel.  „Við höfum verið að taka inn börn úr Báskógabyggð á meðan verið að byggja upp þeirra leikskóla," segir hann.

Helsta áskorunin þjóðgarðsumræðan

Ljósleiðaravæðing sveitarfélagsins er í fullum gangi og hófust framkvæmdir á síðasta ári. Það verður því eitt af verkefnum tilvonandi sveitarstjórnar að klára þau mál. Helstu áskorun tilvonandi sveitarstjórnar telur Jón að sé þjóðgarðsumræðan á hálendinu. Hann segir sameiningarmál geta líka komið upp á næsta kjörtímabili en engar formlegar sameiningarviðræður hafa átt sér stað. Jón bindur vonir við að pólitískur og efnahagslegur stöðugleiki verði áfram í sveitarfélaginu. 

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður