Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Stjórnvöld vilja loka áfram á sjúkdóma

06.03.2014 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslensk stjórnvöld munu aldrei sætta sig við að mega ekki verja landið fyrir dýrasjúkdómum. Þetta kemur fram í greinargerð þeirra til Eftirlitsstofnunar EFTA sem hótar því að draga Ísland fyrir EFTA-dómstólinn verði innflutningsbanni á fersku kjöti ekki aflétt.

Íslensk stjórnvöld fengu formlega áminningu fyrir fjórum mánuðum. Þau hafa nú sent enn eina greinargerð sér til varnar. Þar ítreka þau rök sín; Ísland hafi mikla sérstöðu, hér séu engir þekktir dýrasjúkdómar sem hætta væri á að bærust hingað ef innflutningur yrði leyfður. Ekkert réttlæti að reglan um frjálst flæði vöru og þjónustu innan EES-svæðisins gangi framar viðleitni stjórnvalda til að vernda heilbrigði almennings og dýra.

Í bréfinu fullyrða stjórnvöld að ekkert í samningi um Evrópska efnahagssvæðið skyldi Ísland til að heimila innflutning á hráu kjöti, stjórnvöld gætu í raun, ef þeim sýndist svo, bannað hann með öllu eða sett á hann þá tolla sem þeim sýnist, án þess að brjóta á nokkurn hátt í bága við samninginn.

Vilji Íslendinga sé þó alls ekki að koma á innflutningsbanni, einungis að sjúkdómsverja landið. Bent er á að innflutningur á frosnu kjöti sé heimill, innflutningur á fersku ófrosnu kjöti sé hins vegar svo miklum vandkvæðum bundinn, legu landsins vegna, að bannið breyti í raun engu.
Eins er bent á að fjölmörgum eyríkjum hafi tekist að halda útbreiddum dýrasjúkdómum fjarri og hafi, í því skyni að vernda dýrastofna sína áfram, sett strangar hömlur á innflutning á fersku kjöti.

Á það er minnt að samkvæmt grein 13 í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sé heilsa og velferð almennings sett ofar öðrum hagsmunum. Það sé íslenskra stjórnvalda, en ekki Eftirlitsstofnunar EFTA, að ákvarða hvernig slíkt sé best gert.
Í niðurlagi bréfsins segir að íslensk stjórnvöld séu viljug til að ræða málamiðlanir til að finna lausn á deilunni. Þau muni hins vegar aldrei sætta sig við að mega ekki leita allra leiða til að halda Íslandi áfram sjúkdómsfríu.