Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stjórnvöld viðurkenni hússtjórnarnám

23.05.2017 - 23:03
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað aflýsti námi næsta haust eftir að fulltrúar menntamálaráðuneytisins tjáðu forsvarsmönnum skólans að námið félli ekki að aðalnámskrá. Skólameistari skorar á stjórnvöld að viðurkenna stutt hagnýtt hússtjórnarnám.

Skólinn hefði verið fullsetinn á haustönn

Á þessum tíma stæði vanalega yfir vorútskrift í Handverks- og hússtjórnarskólanum á Hallormsstað en einhverra hluta vegna var lítil aðsókn í skólann á vorönn og kennsla féll niður. Menntamálaráðuneytið stöðvaði þá fjárframlög til skólans sem er sjálfseignarstofnun. Fyrir næstu önn reyndust umsóknir hins vegar fleiri en skólinn gat annað en þrátt fyrir það reynist erfitt að koma skólanum aftur af stað.

Hefðu viljað fá aðlögunartíma

Hússtjórnarskólinn, sem starfað hefur í 87 ár, hefur ekki fengið námsbraut sína viðurkennda en það mál er í vinnslu hjá Menntamálastofnun. Nýr rekstrarsamningur verður ekki gerður fyrr en því lýkur. Menntamálaráðherra upplýsti fyrir helgi að ráðuneytið teldi námið ekki samræmast aðalnámskrá. „Við erum nú dálítið slegin því að þetta eru skilaboð sem okkur hafa ekki borist með svona skýrum hætti fyrr en þetta hússtjórnarnám sem hefur verið rekið hér áratugum saman rúmist ekki innan aðalnámskrár framhaldsskóla. Manni finnst kannski sérstakt að það sé ekki hægt að gefa þessu aðlögunartíma,“ segir Sigrún Blöndal, formaður skólanefndar Handverks- og hússtjórnarskólans á Hallormsstað.

Kennarar létu af störfum 1. maí en skólanefnd vinnur að því að tryggja framtíð skólans. „Það er auðvitað mjög erfitt að hefja aftur starf í skóla sem einu sinni hefur dottið svona niður en það er auðvitað ekkert ógerlegt,“ segir Sigrún.

Skólinn þurfi að þróa námið

Menntamálaráðuneytið sendi í dag frá sér tilkynningu um að nám sem tekur aðeins eina önn samrýmist ekki aðalnámskrá. Skólinn þurfi að þróa viðurkenndar námsbrautir á framhaldsskólastigi eða huga að því að starfa innan svokallaðrar framhaldsfræðslu.

Opna þurfi möguleika fyrir stutt hagnýtt nám

Bryndís Fiona Ford skólameistari segir áfangana sem kenndir eru ekki standa í veginum.  Vandamálið sé að skólinn bjóði ekki upp á stúdentspróf eða skilgreind starfsréttindi samkvæmt aðalnámskrá. „Þau námslok sem eru í boði þar passa ekki og falla ekki að hússtjórnarbraut skólans. Þar af leiðandi fáum við ekki námsbrautina okkar staðfesta. Það þarf að opna möguleikann á námslokum í aðalnámskrá fyrir stutt hagnýtt nám eins og hússtjórnarbraut skólans er,“ segir Bryndís. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV