Stjórnvöld beygðu sig undir ofbeldi

04.09.2011 - 12:21
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir góðar endurheimtur í þrotabúi Landsbankans staðfesta að íslensk stjórnvöld hafi látið undan þrýstingi og beygt sig undir ofbeldi Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Hann hafi alltaf haldið því fram að eignir bankans myndu duga fyrir Icesave-skuldinni. Þá sé rannsóknarefni fyrir Evrópusambandið hvernig ríki sambandsins gátu stutt fáránlegar kröfur Breta og Hollendinga.

Endurheimtur úr eignasafni Landsbankans eru áætlaðar ríflega 1300 milljarðar króna, 13 milljörðum umfram forgangskröfur, sem eru að langstærstum hluta endurgreiðslur vegna Icesave og heildsöluinnlána.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir tölurnar staðfesta það sem hann sagði á blaðamannafundi á Bessastöðum eftir að þjóðin felldi Icesave-lögin, að eignir bankans myndu að öllum líkindum duga fyrir Icesave skuldinni. Réttast hefði verið að bíða og sjá hvað kæmi út úr eignum Landsbankans, frekar en að fallast á fáránlegar kröfur Breta og Hollendinga að íslenska þjóðin gengist í ábyrgð fyrir Icesave skuldinni.

„Það var ekki gert heldur var bara látið undan þessum þrýstingi. Menn beygðu sig fyrir þessu ofbeldi af hálfu Evrópuþjóðanna og samþykktu fyrst samning sem var svo óheyrilegur að ekki aðeins hrópaði íslenska þjóðin hann af heldur hlupu Bretar og Hollendingar frá honum strax nokkrum mánuðum eftir að ákveðið var að setja þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig að það sem er að gerast núna er bara einfaldlega sýn á það að ef haldið hefði verið á málinu af skynsemi frá upphafi þá var bara algjör óþarfi að setja íslenska þjóð og samstarf okkar við Evrópuríkin í þessa spennitreyju,“ segir forsetinn.

Ólafur Ragnar segir Breta og Hollendinga hafa notað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, með stuðningi Evrópusambandsþjóðanna, til að kúga Íslendinga til að fallast á kröfur þeirra.

Þá hafi Dominique Strauss-Kahn, þáverandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagt honum í janúar árið 2010, að hann og forysta sjóðsins væru mjög ósátt við að sjóðurinn væri notaður sem hnefi á Íslendinga. 

„Það er rannsóknarefni fyrir Evrópusambandið að horfast í augu við það hvernig í ósköpunum stóð á því að ríki í Evrópusambandinu samþykktu að styðja þessar fáránlegu kröfur Breta og Hollendinga gagnvart Íslandi,“ segir hann.

„En reynslan sýnir hins vegar nú að það getur bara verið skynsamlegt að bíða. Anda rólega, láta ekki hagga sér og segja bara kæru vinir nú skulum við bara sjá hvað veruleikinn felur í sér, og sem betur fer er hann að leiða það í ljós nákvæmlega það sem ég sagði hérna á blaðamannafundinum á Bessastöðum, eftir að þjóðin hafnaði Icesave-samningi númer tvö, að þeir myndu fá greitt.“

Hér má hlusta á viðtalið við forsetann í heild sinni.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi