Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stjörnustríðsleikkona hrakin af Instagram

Mynd með færslu
 Mynd: Star Wars - Disney

Stjörnustríðsleikkona hrakin af Instagram

06.06.2018 - 14:27

Höfundar

Kelly Marie Tran leikkona hefur þurrkað út Instagram-reikning sinn eftir viðstöðulausar svívirðingar Stjörnustríðsaðdáenda vegna hlutverks hennar í kvikmyndabálknum.

Kelly Marie Tran lék vélvirkjann Rose Tico í kvikmyndinni The Last Jedi. Hún er fyrsta konan af asísku bergi brotin til að fara með burðarhlutverk í Stjörnustríðsmynd. Síðan The Last Jedi var frumsýnd hefur hún mánuðum saman orðið fyrir barðinu á rasískum ummælum og kvenhatri á vefnum.

Á Instagram-síðu hennar mátti áður sjá fjölda ummæla, sem mörg hver voru lituð af kven- og kynþáttahatri, þar sem lítið var gert úr persónu hennar og framlagi til kvikmyndanna. Þar er nú engar myndir að finna en í lýsingu síðunnar stendur „Afraid, but doing it anyway“ – „óttaslegin en ætla samt að gera þetta“.

Mynd með færslu

Áður höfðu rasísk nettröll ráðist á upplýsingasíðu um persónu hennar á vefsvæðinu Wookiepedia, veflægu alfræðiriti Stjörnstríðsheimsins. Þar var nafni persónunnar meðal annars breytt í „Ching Chong Wing Tong“ og henni lýst sem „heimskri, einhverfri og vangefinni.“

Mynd með færslu

Paul Ray Ramsay, vinsæll „alt-right“ Youtube-bloggari, sá á sínum tíma ástæðu til að bera hana saman við aðra asísk-bandaríska leikkonu, Grace Park sem fór með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Battlestar Galactica, og hæddist að holdafari hennar.

Tran er ekki fyrsta Stjörnustríðsleikkonan sem hætt hefur notkun samfélagsmiðla eftir að hafa orðið fyrir aðkasti aðdáenda myndanna. Daisy Ridley, sem fór með aðalhlutverk í The Force Awakens og The Last Jedi, sagði skilið við samfélagsmiðla og sagðist hafa þurft á sálfræðiaðstoð að halda eftir að hafa setið undir hatursfullum ummælum ofsafenginna aðdáenda kvikmyndabálksins.

Sumir Twitter-notendur nýttu tækifærið til að hrósa sigri eftir að fréttir bárust af því að Tran væri hætt að deila myndum á Instagram vegna árásanna.

Mynd með færslu

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Stjörnustríðsþreyta gerir vart við sig

Kvikmyndir

Aðdáendur ósáttir við nýja Stjörnustríðsmynd

Kvikmyndir

Leikur að væntingum í „The Last Jedi“

Kvikmyndir

Enn einn Stjörnustríðsþríleikurinn