Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stjörnustríð ólu af sér Photoshop og Pixar

Mynd: StarWars.com / StarWars.com

Stjörnustríð ólu af sér Photoshop og Pixar

11.10.2017 - 14:56

Höfundar

Fyrsta stiklan úr væntanlegri Stjörnustríðsmynd leit dagsins ljós á dögunum. Guðmundur Jóhannsson velti upp áhrifum myndanna á tækniframfarir í kvikmyndageiranum og hvernig sú þróun smitast jafnvel út í aðra kima samfélagsins.

„Star Wars er náttúrulega búið að vera til síðan 1977 og búið að velta milljörðum króna og það þekkja þetta allir,“ segir Guðmundur Jóhannsson í samtali við Morgunútvarp Rásar 2. Hann segir söguna umfangsmikla og að auki sé tækniþróunin sem myndunum fylgi mjög mikil. „Þá er ég ekki bara að tala um tækniþróunina, að við séum með heilmyndir, eins og þegar Princess Leia segir „Obi-Wan-Kenobi you‘re my only hope“ í fyrstu myndinni, heldur líka hvernig mennirnir sem bjuggu til Star Wars fleyttu tækniþróun áfram og tóku stór stökk,“ segir hann.

Tæknilegar útfærslur í Terminator 2

Höfundur myndanna og söguheimsins er kvikmyndaleikstjórinn George Lucas, en hann stofnaði fyrirtækið Industrial Light & Magic [skammstafað ILM] til þess að halda utan um tækniþróun Stjörnustríðsmyndanna. Guðmundur segir að stærsta dæmið um sterk áhrif Stjörnustríða, sem fæstir þekki, sé úr mynd James Cameron, Terminator 2, en ILM var ráðið inn í verkefnið til þess að sjá um sérlega flóknar tæknibrellur. „Þeir fundu bara engan veginn út hvernig átti að gera þetta“ segir Guðmundur. „Þannig að starfsmaður ILM og bróðir hans búa til forrit til að reyna að leysa vandamálið.  Þeir gera það, það tekst, og það forrit þekkja allir í dag sem koma eitthvað nálægt myndvinnslu. Þetta forrit er notað bara allstaðar þar sem þarf að fegra kosningaplakat eða búa til auglýsingu eða vinna ljósmyndir, og það er Photoshop.“

Lítil deild sem síðar varð fyrirtæki

Guðmundur segir að George Lucas hafi haft mikla trú á því að tölvutæknin myndi leysa mörg vandamál og fleyta kvikmyndagerðinni langt. „Þá stofnaði hann litla deild innan ILM sem síðar varð fyrirtæki, sem hafði það eina hlutverk að koma tölvunni í að gera heilu atriðin, eða þá seinna myndirnar tölvugerðar. Það fyrirtæki seldi hann síðan til Steve Jobs, og það fyrirtæki er Pixar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Pixar - Wikia

Áhrifanna gætir víða, og jafnvel eru tengsl Stjörnustríðsmyndanna óbein, og nefnir Guðmundur sem dæmi áhrif á framþróun og tækniheiminn. „Þar er DARPA, sem er svona rannsóknarstofnun innan Varnarmálaráðuneytisins í Bandaríkjunum. Þeir virðast mikið hafa Star Wars á heilanum. Þeir eru svona í skýjunum að reyna að búa til hluti sem fyrir einhverjum árum síðan voru ómögulegir. Þeir eru til dæmis með róbótíska gervihendi fyrir hermenn sem missa útlimi, og þeir kalla hana Luke, af því að Luke Skywalker [ísl. Logi Geimgengill] var með róbótíska gervihendi og hún lítur frekar svipað út,“ segir Guðmundur.

Mótar framtíðarsýn kynslóða

Hann segir myndirnar hafa haft mótandi áhrif á framtíðarheimsmynd fólks: „Myndirnar hafa haft ótrúleg áhrif á heilu kynslóðirnar, og litað kannski hvernig fólk sér fyrir sér að framtíðin eigi að vera, þegar [þau] sáu myndirnar fyrir löngu síðan. Svona leitum við öll þarna. Og það er sama með Google og þýðingartækin þeirra, þetta er bara úr Star Trek. Þar labbar William Shatner eða Kapteinn Kirk bara um með tæki í eyranu sem þýðir allt í rauntíma. Og svo bara gerist það. Kvikmyndir og bækur hafa bara ótrúleg áhrif á hvernig við  hugsum hlutina fram á við.“

Mynd með færslu
 Mynd:  - Youtube
William Shatner í hlutverki Kapteins Kirk í Star Trek.

George Lucas fór óhefðbundnar leiðir í mannauðsmálum og lagði upp úr að hafa starfsfólk með ólíkan og fjölbreyttan bakgrunn. „Það er svolítið magnað að lesa, þegar maður er að lesa um sögugerð fyrstu Star Wars myndanna, þá er hann að ráða til sín, í raun og veru, krakka. Hann er að ráða til sín bara ótrúlegasta fólk héðan og þaðan, þetta eru arkítektar, þetta eru verkfræðingar, þetta eru líffræðingar. Þetta er bara fólk með ótrúlegasta bakgrunn, sem hefur það eina hlutverk að reyna að leysa einhver vandamál. Þeir vissu ekkert hvernig þeir áttu að gera þetta, enda var engin þekking endilega til. En umfram allt voru þetta bara menn sem höfðu ástríðu fyrir kvikmyndagerð, og vildu leysa þessi vandamál,“ segir hann.

Notast við byssur úr seinni heimsstyrjöld

„Það sem þeir gera er að þeir fóru í eitthvað sem var bara eins og Sala varnarliðseigna, nema bara í Bandaríkjunum, og kaupa bara endalaust af drasli. Sem þeir nota svo. Byssan hans Han Solo er byssa úr seinni heimsstyrjöldinni sem er búið að breyta, og maður man kannski eftir atriðunum yfir Dauðastjörnunni í fyrstu Star Wars myndinni og þá svona fer myndavélin út um allt og hreyfist voða mikið miðað við hvernig hlutirnir voru gerðir þá. Þarna er búið að setja módel yfir nokkur borðtennisborð, myndavélin fer svo hratt yfir og þetta er svona, þarna eru menn að redda sér. Hugsið ykkur hvað þetta eldist samt vel, af því að þetta er ekki gert í tölvu einusinni. Þetta er galið!“

„Í dag er það þannig, í stórum myndum, er eiginlega tölvan búin að snerta alla ramma. Bara við það að bæta inn byggingum eða taka í burtu tré eða gera himininn fallegri, eða litlir hlutir sem við tökum ekki eftir. Tölvan er náttúrulega að gera allt,“ segir Guðmundur.

Hann segir að í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni hafi verið notast við tæknibrellur í 700 skotum, „og svo tekurðu síðustu Star Wars mynd og það eru 7000 [skot]. Þetta er svo mikill munur og svo mikið stökk, og þetta er ekkert það langur tími. Þetta er bara mín ævi, næstum því. Ég er ekki gamall!“

Sigmar Guðmundsson og Sigríður Dögg Auðunsdóttir ræddu við Guðmund Jóhannsson í Morgunútvarpi Rásar 2, þann 11. október 2017

Tengdar fréttir

Mynd með færslu
Mannlíf

Stikla úr nýjustu Stjörnustríðsmyndinni sýnd

Kvikmyndir

Stjörnustríð orðið fertugt

Mynd með færslu
Mannlíf

Stikla úr næstu Stjörnustríðsmynd frumsýnd

Mynd með færslu
Menningarefni

Stjörnustríð með 703 milljónir til landsins