Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stjörnuframmistaða á frábærri skemmtun

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Stjörnuframmistaða á frábærri skemmtun

28.03.2017 - 14:21

Höfundar

Söngleikurinn Elly er frábærlega heppnuð sýning, borin uppi af ótrúlegri frammistöðu Katrínar Halldóru Sigurðardóttur í titilhlutverkinu, að mati gagnrýnenda Menningarinnar.

Söngleikurinn Elly, sem fjallar um ævi Ellyjar Vilhjálms, var frumsýndur á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu á dögunum. Gísli Örn Garðarsson leikstýrir og skrifar jafnframt leikgerðina ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Hlín Agnarsdóttir og Snæbjörn Brynjarsson tóku verkið til kostanna í Menningunni í Kastljósi.  

Elly er ekki hefðbundinn söngleikur.  „Það mætti næstum kalla þetta söngskemmtun eða tónlistardagskrá án þess að gera lítið úr því,“ segir Snæbjörn. „Þetta fylgir ákveðinni Hollywood-formúlu eins og við þekkjum úr myndum um tónlistarfólk á borð við Johnny Cash eða Tinu Turner, þar sem við fylgjum þeim gegnum ævina og tónlistin fylgir tímabilinu, frekar en að ramma inn og endurspegli tilfinningalíf persónanna eins og það gerir í hefðbundnum söngleik.“

Verk sem þetta stendur og fellur með aðalhlutverkinu og þar hefur skipast einstaklega vel að mati gagnrýnendanna. „Stjarna er fædd,“ segir Hlín um Katrínu Halldóru Sigurðardóttur. „Þessi unga stúlka, sem útskrifaðist fyrir tveimur árum slær í gegn. Það er engu ofaukið sem sagt hefur verið um hana. Það er fullkomlega ótrúlegt hvernig henni tekst að hrífa alla áhorfendur með sér.“

Katrín er studd fjórum leikurum, þeim Björgvin Franz Gíslason, Hirti Jóhanni Jónssyni, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur og Birni Stefánssyni, sem öll bregða sér í nokkur hlutverk.

„Þetta krefjandi leikrit fyrir leikarana, drama og mikil húmor sem byggist á hröðum skiptum og tímasetningum. Þetta er ekki auðvelt,“ segir Snæbjörn og nefnir að Björgvin Franz smellpassi í þetta verk, en hann leikur m.a. Ragga Bjarna. 

Þótt hraðinn í verkinu, sem styður við húmorinn, bitni ef til vill á dýptinni í tregafyllri þáttum þess, segja þau Hlín og Snæbjörn hinum sorglegri þáttum í ævi Ellýjar engu að síður komið til skila.  „Sorglegu hliðunum á ævi Ellýjar er kannski ekki skilað í sama mæli og hinum atriðunum en engu að síður klökknaði maður,“ segir Hlín. Hún nefnir líka hversu vel tekst að endurskapa tímann sem verkið gerist á, ekki aðeins í búningum og leikmynd, heldur einnig í tónlistinni. 

„Þetta mun ganga mjög lengi,“ segir Snæbjörn. „því þetta hentar mjög breiðum hópi fólks."

Tengdar fréttir

Tónlist

Elly í stúdíói 12

Leiklist

Katrín Halldóra lagði salinn að fótum sér

Tónlist

Góð pressa sem fylgir því að leika Ellý