Stjórnin vill að þingmennirnir segi af sér

29.11.2018 - 20:42
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Í kvöld var stjórnarfundur hjá Flokki fólksins og var samþykkt þar tillaga um að þingmennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason eigi að segja af sér þingmennsku í kjölfar þess að niðrandi samræður sem þeir tóku þátt í rötuðu í fjölmiðla. Ólafur og Karl Gauti voru fyrst á fundinum en voru farnir í veislu á Bessastöðum þegar þetta var samþykkt. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi flokksins, segir að niðurstaðan hafi verið einróma enda málið grafalvarlegt og mikill trúnaðarbrestur.

„Menn voru ekki á því að hægt væri að snúa þessu til baka," segir Kolbrún. Stjórnin kemur aftur saman klukkan tvö á morgun og tekur stöðuna.

„Fólk var í miklu áfalli á þessum fundi enda er þetta sorglegt mál allt saman," segir Kolbrún jafnframt. „En stjórn flokksins er ekki með neina meðvirkni og þarna var bara mjög heilbrigð umræða. Ég er stolt af því að sjá samheldnina og að það er ekki þessi meðvirkni sem má spyrja sig hvort sé víða."

Í frétt RÚV fyrr í dag sagði Karl Gauti að hann telji sér sætt á Alþingi þrátt fyrir uppákomuna.