Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stjórnin skilji ekki trúnaðarbrestinn

09.04.2016 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Vilhjálmur Árnason, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar, segir sláandi eftir atburði vikunnar það skilningsleysi sem fram hafi komið í máli ráðamanna. Rætt var við hann í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

„Þegar menn segja að þeir hafi ekki aðhafst neitt rangt þá leggja þeir það alfarið að jöfnu við saknæmt athæfi. Það er að segja að haga sér ranglega er  lögbrot. Meira að segja held ég að forsætisráðherra hafi sagt það sjálfur: Ég byggi mitt siðferði á lögum. “

Menn hafi talað um að það sem hafi gerst hafi ekki stangast á við hagsmunaskráningu og siðareglur. „Það var ekki litið á inntak og markmið laga og reglna heldur bara á bókstafinn og helst þannig að maður reyndi að komast sem lengst frá honum án þess að upp um mann kæmist. Þetta vorum við helst að ræða út frá fjármálamönnum í [Rannsóknarskýrslu Alþingis] en hér er um að ræða stjórnmálamenn sem eru gæslumenn almannahagsmuna. Það er sérstaklega sláandi og til marks um mikið siðferðilegt skilningsleysi þegar menn verja sig út frá stöðu sakamannsins ef svo má segja, að „ég hafi ekki gert neitt rangt fyrr en sekt er sönnuð“, í stað þess að skilja bara ákveðin grundvallaratriði sem varða trúnað, trúmennsku og trúverðugleika þeirra sem við höfum falið að fara með fjöregg þjóðarinnar.“

Vilhjálmur segir þetta hvað eftir annað koma fram á sláandi hátt í því sem menn segja. „Líka varðandi lýðræðið. Menn segja: hér voru kosningar, við fengum sterkt umboð, við höfum meirihluta. En það er enginn skilningur á því að fólki blöskrar skorturinn á trúverðugleika og að menn hafi brugðist trúnaði. Hér þurfi að vera hófsöm valdstjórn í góðu samráði við borgarana og menn svari fjölmiðlum á skýran og uppbyggilegan hátt og gangist við mistökum sínum.“

Hann segir að þetta hafi verið áberandi í vikunni. „Þetta var sérstaklega áberandi hjá forsætisráðherra að hann hættir án þess að viðurkenna eiginlega nein mistök. Það hefur verið ein stóra sorgin í þessu máli að horfa upp á. [...] Það er rík kenning í gegnum alla hugmyndasöguna að menn geti hugsað um heiðarleika út frá upplýstum eiginhagsmunum, þannig að það komi sér bara betur fyrir þá sjálfa að gera ákveðna hluti. En það hefur algjörlega skort. Við höfum horft upp á menn, sérstaklega forsætisráðherrann, með mjög dramatískum hætti í rauninni vinna algerlega gegn eigin hag og segja af sér, eða allavega stíga til hliðar, vitandi það samkvæmt eigin afstöðu að hann hafi ekki gert neitt rangt.