Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Stjórnin biðst lausnar

24.10.2011 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur sent Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra bréf þar sem stjórnarmenn óska þess að þeir verði leystir frá störfum. Stjórnarmenn segjast gera þetta vegna utanaðkomandi afskipta af ráðningu Páls Magnússonar sem forstjóra stofnunarinnar.

Stjórnin sendi rétt í þessu frá sér bréf þar sem segir að henni sé ekki lengur sætt vegna þessara afskipta. 

Stjórnin ítrekar að hún hafi byggt þá ákvörðun sína að bjóða Páli starfið á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum þar sem eiginleikar og hæfileikar Páls til að sinna starfinu hafi legið til grundvallar.

Ákvörðun stjórnarinnar um að ráða Pál var harðlega gagnrýnd, einkum þar sem hann er fyrrverandi aðstoðarmaður tveggja viðskiptaráðherra, þeirra Valgerðar Sverrisdóttur og Finns Ingólfssonar. Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir í ráðherratíð þeirra. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis kallaði ráðninguna hneyksli, svo dæmi sé tekið. Í yfirlýsingu stjórnar Bankasýslunnar segist hún aldrei hafa litið svo á að ákvarðanir hennar væru hafnar yfir gagnrýni. „Í áðurnefndri umræðu hefur hins vegar verið vegið að trúverðugleika Bankasýslunnar og friður rofinn um starfsemi hennar. Viðbrögð alþingismanna benda til þess að erfitt verði fyrir stofnunina að starfa með eðlilegum hætti að þeim mikilvægu og vandasömu verkefnum sem henni er ætlað að sinna og framundan eru.“

Hér að neðan má lesa tilkynninguna frá fráfarandi stjórn Bankasýslu ríkisins.