Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stjórnarslitin „stórkostlegt ábyrgðarleysi“

15.09.2017 - 08:18
Mynd: RÚV / RÚV
„Mér finnst þetta lýsa stórkostlegu ábyrgðarleysi af hálfu þessa litla flokks, sem er þó með fjóra þingmenn á þingi og hefur lýst sig reiðubúinn til að starfa í ríkisstjórn,“ sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Hún segir fyrstu viðbrögð sín af ákvörðun Bjartrar framtíðar um að slíta stjórnarsamstarfinu hafa verið tregablandin. Spurð hvað Björt framtíð hefði átt að gera svaraði Sigríður: „Mér hefði fundist að þau ættu að gefa forsætisráðherra tækifæri á að tjá sig um málið og ræða þetta við samstarfsflokkana frekar. En þessi tilkynning, undir miðnætti í gær, af einhverjum netfundi stjórnar þessa flokks sýnir það auðvitað að þessum flokki var auðvitað aldrei nein alvara í því að axla ábyrgð hér á ríkismálunum í samstarfi við ríkisstjórn Íslands. Þetta er auðvitað háalvarlegt mál að mínu mati, að menn taki að sér að axla þessa ábyrgð en standi ekki meira undir henni en svona,“ sagði hún.

Hún sagði málið ekki þannig vaxið að það hafi borið að upplýsa um það umfram önnur mál. „Ég hefði auðvitað alveg getað rætt það í trúnaði við aðra ráðherra en ég sá ekki ástæðu til þess,“ sagði hún.

„Ég gæti alveg skilið það að mönnum finnist þetta vera trúnaðarbrestur. En það er það ekki. Ég hefði ekkert frekar viljað en birta þessar upplýsingar á þessum tímapunkti í sumar en mér var einfaldlega ekki stætt á að gera það því málið var í afgreiðslu hjá úrskurðarnefnd upplýsingamála,“ segir Sigríður. Ef úrskurður hefði legið fyrir hefði gögnin verið birt. 

Aukafréttatími verður í sjónvarpinu klukkan 12.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir