Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Stjórnarskrármálið í hlægilegum farvegi“

24.06.2014 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnarskrárnefnd, sem skipuð var af forsætisráðherra í fyrra haust, skilaði í dag fyrstu áfangaskýrslu sinni. Þorvaldur Gylfason, formaður Samtaka um nýja stjórnarskrá, segir farveginn sem stjórnarskrár málið er komið í vera sprenghlægilegan en jafnframt svívirðilegan.

Í skýrslu Stjórnarskrárnefndar eru teknir fyrir fjórir málaflokkar sem brýnt þótti að setja í forgang; Þjóðaratkvæði á grundvelli undirskrifta, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, sameign auðlinda og umhverfisvernd. Ekki ríkir eining innan nefndarinnar, Sigurður Líndal, formaður hennar, vill hrófla sem minnst við gildandi stjórnarskrá en Katrín Jakobsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, telur hins vegar að breytinga sé þörf. Í skýrslunni eru ekki settar fram neinar tillögur. Þess í stað er þar samantekt yfir það sem þegar hefur verið gert og varpað fram álitamálum sem þarf að komast til botns í. Ekki eru allir sáttir við störf Stjórnarskrárnefndar. Þorvaldur Gylfason, formaður Samtaka um nýja stjórnarskrá og fyrrverandi meðlimur í stjórnlagaráði, talar um valdarán. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 2012 sé virt að vettugi.