Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stjórnarskrá rædd á aukafundi á þingi

15.02.2013 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Boðað var til aukafundar á Alþingi í dag án samráðs við stjórnarandstöðu. Annarri umræðu um stjórnarskrárfrumvarpið er fram haldið og sagði formaður nefndarinnar nú rétt fyrir fréttir að rétt væri að taka málið til nefndar á ný milli annarrar og þriðju umræðu.

Átján þingmenn eru enn á mælendaskrá í annarri umræðu um frumvarp meirihluta stjórnskipunarnefndar að nýrri stjórnarskrá. Að óbreyttu er löng umræða framundan enda málið umfangsmikið. Samkomulag um afgreiðslu þess er hvergi nærri í augsýn og sumir benda á að það líti ekki dagsins ljós fyrr en að loknum landsfundum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um næstu helgi.

Birgir Ármannsson vildi fresta umræðunni í dag. „Umræðan sem á að fara fram hér í dag er í raun og veru fullkomlega ótímabær vegna þess að við vitum ekki, enginn í þessum sal veit í raun og veru á hvaða stað við erum í umræðunni.“

Það er nokkuð víst, í ljósi þess hve stutt er fram að þingfrestun, að semja þarf um ákveðna hluta þessa máls. Á þá lausn hefur til dæmis stjórnarliðinn Skúli Helgason bent þegar hann ræddi álit Feneyjanefndarinnar. „Veigamestu athugasemdir nefndarinnar lúta hins vegar að köflunum um stjórnskipan ríkisins, samspili hinna þriggja greina ríkisvaldsins og er rétt að meta vandlega, að mínu mati, hvort ekki sé rétt að áfangaskipta verkinu með þeim hætti að þeir kaflar verði teknir til nánari endurskoðunar og afgreiddir á næsta þingi.“

Í svipaðan streng tók forsætisráðherra á Alþingi í gær í svari við spurningu Vigdísar Hauksdóttur. „Hér er komið Feneyjarálit sem tekur á því að gagnrýna mjög stjórnskipan í þessum tillögum. Við þurfum bara að fara mjög vandlega yfir það hvernig fara eigi með það ákvæði en ég vænti þess að við getum átt góða samvinnu við Framsóknarflokkinn, eins og aðra flokki á þingi, að fá sem farsælastar lyktir í þetta mál.