Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stjórnarskrá Grænlands í undirbúningi

04.08.2017 - 19:50
Innan þriggja ára á frumvarp að stjórnarskrá sjálfstæðs Grænlands að vera tilbúin. Grænlendingar eiga síðan að greiða atkvæði um hana í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vivian Motzfeldt, formaður stjórnarskrárnefndarinnar, segir alls óvíst hvenær sú atkvæðagreiðsla fari fram.

Nefnd, sem grænlenska þingið skipaði, vinnur nú að því skrifa tillögur að stjórnarskrá fyrir Grænland. Grænland er hluti danska konungsríkisins, Rigsfælledskabet, ásamt Færeyjum og Danmörku sjálfri.

Hafa þegar mikla sjálfstjórn

Grænlendingar hafa þegar umtalsverða sjálfstjórn og frá stjórnskipulegum breytingum 2009 hafa þeir rétt til að lýsa yfir fullu sjálfstæði kjósi þeir að gera það. Danir fara enn með utanríkis-og varnarmál en samkvæmt sjálfstjórnarlögunum frá 2009 eru Grænlendingar þjóð að alþjóðarétti og grænlenska opinbert tungumál. 

Grænland var dönsk nýlenda til 1953 er landið var innlimað í Danmörku, varð amt í danska ríkinu.  1979 fengu Grænlendingar heimastjórn með eigið þing og stjórn og loks sjálfstjórn 2009.

Starf stjórnarskrárnefndar að hefjast

Stjórnarskrárnefndin var kjörin fyrr á árinu. Formaður hennar er Vivian Motzfeldt, sem situr á þinginu í Nuuk fyrir fyrir stærsta flokk Grænlands Siumut. Flokkurinn er Jafnaðarmannaflokkur og fer með stjórnarforystu. Sjö eru í nefndinni og sitja fulltrúar allra flokka á þinginu í henni. 

Heimsóknir til Íslands og Færeyja

Nefndin hefur nú tekið til starfa og er í heimsókn á Íslandi og hittir hér ýmsa ráðmenn þar á meðal Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands. Nefndin hyggst einnig fara til Færeyja, þar sem undirbúningur stjórnarskrár er lengra kominn. Grænlendingarnir ætla að læra af reynslu grannþjóðanna segir Motzfeldt. Hún segir og að nefndinni er ætlað að skila tillögum sínum eftir tvö til þrjú ár en að sá tími lengist hugsanlega. Það sé því ekki hægt að segja til með vissu um hvenær Grænlendingar greiða atkvæði um stjórnarskrártillögurnar.

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV