Stjórnarsáttmálinn í hnotskurn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, kynntu í morgun stjórnarsáttmála ríkisstjórnar flokkanna þriggja.

Um 100 aðgerðir og áherslumál er að finna í sáttmálanum. Þau helstu eru þessi:

●     Ríkisstjórnin vill efla Alþingi. Styrkja á sjálfstæði þingsins, meðal annars með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.

●     Þverpólitískir hópar verða settir á fót um nokkur veigamikil verkefni, svo sem stofnun miðhálendisþjóðgarðs, mótun orkustefnu og nýsköpunarstefnu og endurskoðun stjórnarskrárinnar.

●     Ríkisstjórnin ætlar í átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma, fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland, draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og hrinda geðheilbrigðisáætlun í framkvæmd. Með þessu á heilbrigðiskerfið að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og stefnt er að allir landsmenn fái notið góðrar heilbrigðisþjónustu.

●     Ríkisstjórnin hyggst setja fram aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Þá ætlar hún að efla Innviði réttarvörslukerfisins verða til að styrkja stöðu brotaþola og efla og samhæfa þjónustu við brotaþola á landsvísu. Lagaumhverfi kynferðisbrota verður rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota.

●     Ríkistjórnin stefnir að því að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020. Iðnnám og verk- og starfsnám verði eflt og framhaldsskólum tryggt fjármagn og frelsi til eigin stefnumótunar. Þá hyggst hún bregðist við yfirvofandi kennaraskorti í samstarfi við sveitarfélögin.

●     Stofna á Þjóðarsjóð  utan um arð af auðlindum landsins. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum

●     Sett verður fram ný löggjöf um kynrænt sjálfræði.

●     Ríkisstjórn vill hraða uppbyggingu í vegamálum og styðja við borgarlínu. Ljósleiðaravæðingu landsins á að ljúka 2020 og auka á afhendingaröryggi raforku.

●     Áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verða lögð til hliðar. Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22%. Kolefnisgjöld verða hækkuð um 50% fyrst um sinn. Virðisaukaskattur af bókum verður afnuminn.

●     Ríkisstjórnin leggur áherslu á ábyrg ríkisfjármál og efnahagslegan stöðugleika. Lækka á tekjuskatt í neðra skattþrepi og á kjörtímabilinu á að lækka tryggingagjald.

●     Stjórnin hyggst endurskipuleggha fjármálakerfið og taka skref í átt að afnámi verðtryggingar á neytendalánum.

●     Ríkisstjórnin ætlar að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði og innleiða ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, unnið gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og efla vinnueftirlit.

●     Stjórnarsáttmálinn ætlar að stuðla að bættu aðgengi landsmanna að húsnæði með eflingu stuðningskerfa, samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis og auknu gagnsæi á leigumarkaði.

●     Hækka á frítekjumark atvinnutekna aldraðra í hundrað þúsund krónur um næstu áramót. Þá á að uppfæra gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega. Samráð verður haft við heildarsamtök örorkulífeyrisþega um umbætur á almannatryggingakerfinu í þeirra þágu.

●     Ríkisstjórnin ætlar að gera úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi og setja fram tillögur til úrbóta.

●     Stjórnin stefnir á kolefnishlutlaust Íslandi í síðasta lagi árið 2040 og 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Stofna á Loftslagsráð og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð.

larao's picture
Lára Ómarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi