Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stjórnarsáttmálinn borinn undir flokksráð VG

Mynd: RÚV / RÚV
Flokksráð Vinstri-grænna kom saman til fundar á Grand Hótel í dag til að ræða ríkisstjórnarsamstarf flokksins við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Um 160 flokksmenn skráðu sig til setu á fundinum, með málfrelsi og tillögurétt, en aðeins fulltrúar í rúmlega hundrað manna flokksráði Vinstri-grænna hafa atkvæðisrétt þegar ríkisstjórnarsáttmálinn verður borinn upp til atkvæða.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, og Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður kynna ríkisstjórnarsáttmálann og segja frá fyrstu skrefum fyrirhugaðrar ríkisstjórnar. Búist er við því að fundi ljúki um eða fyrir klukkan níu í kvöld og þá liggur fyrir afstaða flokksráðs til stjórnarmyndunarinnar.

Tveir þingmenn flokksins, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, greiddu atkvæði gegn stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Þau ætla ekki að upplýsa fyrr en á fundinum hvort þau styðji stjórnarmyndunina eða ekki.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV