Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Stjórnarráðsstarfsmenn ósáttir við Sigmund

06.03.2015 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Starfsmannafélög Stjórnarráðsins segja forsætisráðherra hafa vegið að heiðri félagsmanna með ummælum sínum í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag um að lekar úr ráðuneytum um persónuupplýsingar fólks væru algengir á Íslandi. Formaður annars starfsmannafélagsins segir ummælin mjög alvarleg.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var spurður út í stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Lekamálið í Kryddsíldinni á gamlársdag. Hann sagði mjög óvenjulegt að lekamál skyldi hafa orðið að svo stóru lögreglumáli. 

Sagði leka algenga

„Það er ekki óalgengt að það séu lekar, þess vegna úr ráðuneytum eða stofnunum, það er í raun bara mjög algengt á Íslandi. Og oft lekar um mál sem varða persónulega hagi fólks," sagði Sigmundur. 

Fjölmiðlar fylgdu málinu eftir og spurðust fyrir um meinta leka, en þær upplýsingar bárust frá forsætisráðuneytinu að engin dæmi væru um slíkt sem hægt væri að nefna. 

Starfsmenn ráðuneytanna ósáttir

Stjórnir félaga starfsmanna Stjórnarráðsins sendu bréf til ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins í kjölfar ummælanna þar sem segir að félögin hafi fjallað um málið og þyki forsætisráðherra hafa með ummælum sínum vegið að heiðri félagsmanna. Það sé miður. Ragnheiður Bóasdóttir, formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, segir ummælin alvarleg.  

„Ég tek þetta bara mjög nærri mér og mjög alvarlega fyrir hönd starfsfólks stjórnarráðsins," segir hún. „Við höfum mjög skýrar siðareglur og við höfum líka lög um stjórnarráð Íslands um að gæta fyllsta trúnaðar, og ég kannast ekki við að þetta sé eitthvað sem gerist í okkar tali eða starfi. Engan veginn. Ég veit ekki til annars en að fólk sé mjög vandað í sínum vinnubrögðum."

Engin svör frá forsætisráðuneytinu

Félögin hvöttu ráðuneytisstjóra til að taka málið til meðferðar og lýsa yfir fullum vilja til að taka þátt í því. Ragnheiður segir að engin viðbrögð hafi borist frá forsætisráðuneytinu síðan á gamlársdag, hvorki við bréfinu, sem var sent 21. janúar, né vegna ummæla Sigmundar. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir