Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Stjórnarformaður RÚV: Ágætis lausn

19.12.2015 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Menntamálaráðherra dró í gær til baka frumvarp sitt um óbreytt útvarpsgjald og því lækkar útvarpsgjaldið um 1.400 krónur - úr 17.800 í 16.400 um áramótin. Ríkisútvarpið fær sérframlag úr ríkissjóði á næsta ári upp á 175 milljónir króna, sem verja á til kvikmynda- og þáttagerðar. Útvarpsstjóri segir þetta mikil vonbrigði en stjórnarmaður RÚV telur þetta ágætis lausn.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir það mikil vonbrigði að útvarpsgjaldið skuli lækkað enn frekar um áramótin.

Þó er það jákvætt að skellurinn sé ekki alveg jafn stór og hann hefði getað orðið.

Magnús Geir segir ljóst að niðurstaða málsins hafi áhrif á dagskrá og þjónustu. Áfram þurfi að reka RÚV án halla.

Ég held að það sé of snemmt að segja til um hvernig þessu verður mætt en það þarf að meta fyrst umfangið og fara svo í forgangsröðun. Það þarf að gerast í samstarfi stjórnar, menntamálaráðherra, stjórnenda og annarra. 

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV, segir hins vegar að lausnin sé ágæt.

Já þetta er ágætis lausn miðað við þá stöðu sem málið var komið í innan þingflokka stjórnarmeirihlutans og mér sýnist að mennta- og menningamálaráðherra hafi náð að leysa þetta nokkuð ágætlega miðað við stöðuna. 

Að vísu þrengir þetta aðeins að hjá okkur, eins og hann hefur sjálfur sagt, en þetta er ágæt niðurstaða fyrir okkur til að vinna úr.

Guðlaugur segist ekki taka undir með útvarpsstjóra að niðurstaðan sé mikil vonbrigði.

Ég geri það reyndar ekki, því ef við reiknum þetta til baka, þá eru 212.700 greiðendur áætlaðir af afnotagjaldinu. Og með 175 milljóna króna framlaginu, þá eru þetta 17.400 sem við fáum, per gjaldanda. Og stjórnarandstaðan bað um 17.800, eða óbreytt útvarpsgjald. Þannig að mér sýnist við vera að mæta öllum sérstökum óskum um það. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV