Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stjórnarflokkarnir tapa fylgi

28.02.2014 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er komið undir fjörutíu prósent, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Síðastliðna sjö daga, eftir að utanríkisráðherra lagði fram tillögu sína um að draga aðildarumsókn að ESB til baka, lækkaði fylgið enn og innan við þriðjungur lýsti stuðningi við stjórnarflokkana.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með tæplega 24 prósenta fylgi samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup og lækkar um þrjú prósentustig milli mánaða. Fylgi Framsóknarflokksins fellur einnig um þrjú prósentustig og mælist rúm fimmtán prósent. Bæði Samfylking og Björt framtíð mælast með meira fylgi en Framsóknarflokkur. Samfylkingin með tæp sautján prósent og Björt framtíð með tæp sextán. Báðir flokkar bæta við sig fylgi. Vinstri-græn mælast með þrettán prósenta fylgi og Píratar með tæp tíu prósent.

Þessar tölur miðast við svör frá 1. febrúar til dagsins í gær. Ef aðeins er miðað við svör síðustu vikuna blasir allt önnur mynd við. Það er frá þeim tíma þegar tillaga stjórnarflokkanna um að draga aðildarumsóknina að Evrópusambandinu til baka, án þjóðaratkvæðagreiðslu, var lögð fram á Alþingi.

Þá vikuna mældist Sjálfstæðisflokkur með nítján prósent atkvæða og Framsóknarflokkur þrettán prósent. Samanlagt er það innan við þriðjungur atkvæða. Samfylkingin fengi átján prósent, Björt framtíð sautján prósent og Vinstri græn þrettán prósent. Sjö prósent lýstu stuðningi við Pírata síðustu viku könnunarinnar. Hafa verður í huga að eini tölfræðilega marktæki munurinn á fylgi flokkanna fyrstu þrjár vikur mánaðarins og þá síðustu er á fylgi Sjálfstæðisflokksins. Munurinn á fylgi annarra flokka er innan skekkjumarka.

Um könnunina:
Spurt var:
Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?
En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?
Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?

Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 1. til 27. febrúar 2014. Heildarúrtaksstærð var 5.720 og þátttökuhlutfall var 59,5%. Vikmörk eru 0,8-1,5%. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.