Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stjórnarandstöðuflokkar ræða stjórnarmyndun

30.10.2017 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Stjórnarandstöðuflokkar síðustu kjörtímabils ættu að fá svigrúm til að ræða saman um stjórnarmyndun, sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar eftir fund sinn með forseta, síðust flokksformanna í dag. Formenn Samfylkingarinnar og Pírata lögðu til að formaður Vinstri-grænna fengi stjórnarmyndunarumboð. Formaður Framsóknarflokksins taldi þó mikilvægt að mynda stjórn með breiðari skýrskotun. Formenn Miðflokksins og Flokks fólksins sögðust samstíga um margt.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að Sjálfstæðisflokkurinn treysti sér vel til að láta reyna á stjórnarmyndun en að hins vegar kynni að vera ágætt að leyfa rykinu að setjast og gefa flokkunum meira svigrúm áður. „Mögulega gæti þetta gerst með óformlegum viðræðum,“ sagði Bjarni þegar hann ræddi við fréttamenn að loknum fundi sínum með Guðna Th. Jóhannessyni forseta á Bessastöðum á ellefta tímanum.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sagði að loknum fundi sínum með forseta að forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Framsóknarflokks, væru allir reiðubúnir að skoða þann möguleika að mynda saman ríkisstjórn. Samhliða því yrði skoðað hvernig skapa mætti „breiðari samstöðu“ um ýmis mál við aðra flokka, sem snerist þá meðal annars um vinnubrögð á Alþingi.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði eftir fund sinn með forseta að hann væri hrifnari af þeirri hugmynd að mynda ríkisstjórn með breiða skírskotun yfir miðjuna, frá hægri til vinstri, en að fráfarandi stjórnarandstaða myndi saman ríkisstjórn. Hann sagði að það væri vænlegra til að skapa hér pólitískan stöðugleika og segist tilbúinn að taka við stjórnarmyndunarumboðinu frá forseta til að koma saman slíkri stjórn.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að ríkisstjórn fráfarandi stjórnarandstöðuflokka væri „rökrétt framhald“ af kosningunum. Ríkisstjórnin hafi fallið, stjórnarandstaðan hafi meirihluta og grunn til að byggja á, þótt tæpur sé. Hann sagði „augljóst“ að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ætti að fá stjórnarmyndunarumboðið ef hún sæktist eftir því. Þá sagði hann hugsanlegt að hægt væri að breikka slíkt stjórnarsamstarf „með einhverjum varíöntum“, annað hvort innan stjórnarinnar eða í nefndum á þinginu.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Inga Sæland, formaður Miðflokksins, áttu fund í morgun og hafa náð samkomulagi um óformlegt bandalag eftir kosningarnar. Hann sagði að loknum fundi sínum með forseta að hann og Inga væru sammála um að það væri gott fyrir næstu ríkisstjórn að báðir flokkar þeirra yrðu hluti af henni. Sigmundur Davíð sagðist líka hafa rætt við Bjarna Benediktsson og sagðist sjá samstarfsgrundvöll við Framsóknarflokkinn.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, fulltrúi Pírata, sagði eftir fund með forseta að Píratar væru reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum, sýna ábyrgð og koma að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Eðlilegast væri að stjórnarandstaðan, sem nú væri með nauman meirihluta, fengi tækifæri til að reyna að mynda slíka stjórn og að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, leiddi þá stjórnarmyndun. Hún sagði að þetta hefði verið rætt á óformlegum fundi forystumanna flokkanna í morgun. „Við eigum góðan samræðugrundvöll.“

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagðist eftir fund sinn með forseta ekki hafa myndað bandalag með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Miðflokknum þótt þau ættu samleið um margt. „Við erum náttúrulega afskaplega lík um margt í okkar málefnastefnu þannig að eðli málsins samkvæmt tölum við saman, eins og margir aðrir.“ Hún sagði að það lægi í augum uppi að forsetinn veitti annað hvort Bjarna Benediktssyni stjórnarmyndunarumboðið, sem formanni stærsta flokksins, eða Sigmundi, sem stærsta sigurvegara kosninganna.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gekk síðust flokksformanna á fund forseta. Að fundi loknum sagðist hún hafa komið þeim skilaboðum áleiðis, með hliðsjón af orðum annarra, að gefa ætti stjórnarandstöðuflokkunum tíma til óformlegra viðræðna, þannig fengju þeir tækifæri til að ráða ráðum sínum. Þorgerður sagði að það yrði auðveldara fyrir flokka að mynda ríkisstjórn núna en fyrir ári síðan. Menn byggju að þeirri reynslu sem þeir hefðu öðlast í stjórnarmyndunarviðræðunum sem stóðu yfir í þrjá og hálfan mánuð. Hún sagði Viðreisn ekki myndu skorast undan ábyrgð ef til þeirra væri leitað um stjórnarmyndun. Það væri þó alltof snemmt að svara því hvort flokkurinn myndi verja minnihlutastjórn, eða stjórn með nauman meirihluta, vantrausti.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV