Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnarandstæðingar í yfir 200 ára fangelsi

epa06682723 People protest during the night of demonstrations in rejection of Social Security reforms in Managua, Nicaragua, 20 April 2018. Motorcycles, tires, plastic, as well as the so-called 'Trees of Life', iron figures that the Government
Frá mótmælum í Níkaragva í fyrra. Mynd: EPA-EFE - EFE
Tveir leiðtogar stjórnarandstæðinga í Nígarakva voru dæmdir í yfir 200 ára fangelsi hvor í dag fyrir þátttöku sína í ofbeldisfullum mótmælum í fyrra. 325 létu lífið í mótmælum gegn forsetanum Daniel Ortega.

Medardo Mairena hlaut 216 ára dóm fyrir hryðjuverk auk sex annarra glæpa í tengslum við þátttöku hans í mótmælunum sem leiddu til dauða fjögurra lögreglumanna og eins almenns borgara, hefur AFP fréttastofan eftir lögmanninum Julio Montenegro. Pedro Mena hlaut litlu skemmri dóm, 210 ára fangelsi fyrir hryðjuverk og aðra glæpi. Montenegro, sem starfar fyrir óháð mannréttindasamtök, segir ekkert fordæmi fyrir dómunum og þeir séu allt of harðir. Þeir Mairena og Mena verða þó aðeins í 30 ár á bak við lás og slá, þar sem það er hámarks fangavist í lögum Nígarakva.

Mairena er einn leiðtoga hóps sem kallar sig Borgarasamtök um lög og lýðræði, sem var stofnaður í maí. Samtökin vildu finna leið út úr pólitískri kreppu ríkisins með samtali við stjórnvöld. Mótmælin gegn forsetanum hófust í apríl í fyrra og undu þau fljótt upp á sig þar sem stjórnvöld mættu þeim af mikilli hörku. Í júní slitnaði upp úr viðræðum samtaka Mairena og stjórnar Ortega þar sem forsetinn hafnaði kröfu stjórnarandstæðinga um að víkja úr embætti og boða til nýrra kosninga.

Mótmælin stóðu yfir þar til í október. Fjöldi lét lífið og yfir 750 voru handteknir og sakaðir um hryðjuverk. Mótmælendur saka Ortega um að hafa komið upp einræði í landinu ásamt eiginkonu sinni Rosario Murillo, sem jafnframt er varaforseti Níkaragva.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV