Stjórnarandstaðan reiðubúin að skoða samstarf

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, segir að forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Framsóknarflokks, séu allir reiðubúnir að skoða þann möguleika að mynda saman ríkisstjórn. Samhliða því yrði skoðað hvernig skapa mætti „breiðari samstöðu“ um ýmis mál við aðra flokka, sem snerist þá meðal annars um vinnubrögð á Alþingi.

Þetta sagði Katrín eftir fund sinn með forseta Íslands á Bessastöðum sem lauk nú klukkan 11.30. Hún áréttaði að samtölin við hina flokkana þrjá væru ekki svo langt komin að hún hefði starfhæfan meirihluta á bak við sig. Þess vegna teldi hún rétt að Guðni Th. Jóhannesson biði með að veita einhverjum formannanna umboðið og gæfi fólki þannig svigrúm til viðræðna.

Hún sagðist telja mikilvægt að sá sem fengi umboðið hefði starfhæfan meirihluta á bak við sig til að eitthvað yrði úr viðræðunum.

Fimmti flokkurinn ekki útilokaður

Katrín var spurð hvort til greina kæmi að leiða fimmta flokkinn að viðræðunum. „Þetta er byrjunin að okkar mati,“ sagði hún en tók fram að engir möguleikar hefðu verið útilokaðir, en að breiða samstaðan sem hún hefði vísað til fyrr í máli sínu vísaði fyrst og fremst til bættra vinnubragða á þinginu.

„Það eru allir reiðubúnir að skoða þennan möguleika,“ sagði Katrín, en þegar fréttamenn ætluðu að reyna að fá upp úr henni um hvað viðræðurnar mundu snúast sagði hún að þau ætluðu „ekki að eiga þessi samtöl í beinni útsendingu í fjölmiðlum“. Það væri ekki árangursríkast.

Samtal Katrínar við fjölmiðla má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi