Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stimplar með tæpum helmingi stafrófs

Mynd með færslu
 Mynd:
Kjósendur utan kjörfundar geta valið á milli 15 stimpla með jafnmörgum listabókstöfum framboða til Alþingis. Þeir eru tæplega helmingur íslenska stafrófsins sem inniheldur 33 bókstafi.

Bergþóra Sigmundsdóttur, deildarstjóri þinglýsinga- og skráningadeildar hjá Sýslumanninum í Reykjavík og yfirmaður utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Laugardalshöll, segir starfsmenn hafa dreift vel úr stimplum á kjörborðum. Einnig hafa þeir gætt þess að hafa gott bil á milli þeirra svo þeir valdi kjósendum ekki óþægindum eða ruglingi. Jafnframt segir Bergþóra að á kjörstöðum hangi uppi allir framboðslistar og listabókstafir kjósendum til glöggvunar en framboð til þings hafa aldrei verið fleiri en í ár. 

Samkvæmt leiðbeiningum um utankjörfundaratkvæðagreiðslu á vef Innanríkisráðuneytisins mega kjósendur velja hvort þeir stimpla eða rita listabókstaf á kjörseðla. 

Síðdegis í dag höfðu 4.956 kjósendur greitt atkvæði í utankjörfundaratkvæðagreiðslu.