Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stimming til Íslands

Mynd með færslu
 Mynd: Martin Stimming

Stimming til Íslands

27.04.2019 - 15:00

Höfundar

Þýski raftónlistarmaðurinn Martin Stimming er væntanlegur til landsins en hann kemur fram á útgáfutónleikum vegna nýrrar plötu tónlistarmannsins Janusar Rasmussen.

Janus sendi nýlega frá sér sína fyrstu sólóplötu og af því tilefni verður blásið til tónlistarveislu á Húrra á þriðjudagskvöld þar sem raftónlistarmaðurinn Stimming kemur meðal annars fram, en hann er heiðursgestur tónleikanna.

Martin Stimming er vel kunnugur raftónlistarheiminum en hann hefur á ferli sínum komið víða við. Hann stofnaði plötuútgáfu þegar hann var  aðeins 19 ára gamall og hefur verið að raka að sér tónlistarverðlaunum frá árinu 2008. Um tónlist sína hefur Stimming sjálfur sagt að hann sé hvorki smeykur við að sýna tilfinningar sínar né að bera þær á borð í gegnum tónlistina.

Stimming hefur vakið mikla athygli fyrir að setja mark sitt á raftónlistarsenuna með frumlegum hætti og áður óþekktum hljómi. „Mig langar til að fólk sjái mig sem listamann í stöðugri þróun, þú veist aldrei hvað kemur næst en þegar þú heyrir það veistu að það er Stimming,“ segir hann. Tónleikarnir verða haldnir klukkan tíu á Húrra 30. apríl.