RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Stíll og markhópur - og dálítil gagnrýni

Mynd: Ryan McGuire / Gratisography
Flestir hafa lent í að skilja hvorki upp né niður í texta, sem birtur er til dæmis sem fréttatilkynning á vef eða í blaði, þótt þeir lesi hann margsinnis. Samt er ljóst að textinn hlýtur að vera merkingarbær og ætlaður almennum lesendum. Þá kann að vera að sá sem samdi textann hafi ekki haft markhópinn í huga og skrifað út frá eigin sérþekkingu og annarra í faginu en gleymt að hafa markhópinn í huga.

Um málsnið

Málsnið er búningurinn sem við veljum máli okkar og það veljum við eftir tilefni. Dæmin sem oftast eru tekin um málsnið eru um hvernig unglingar tala allt öðru vísi sín á milli en þeir tala við foreldra sína að ekki sé talað um afa og ömmu. 

Við formlegar aðstæður, til dæmis á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs, er sjálfsagt og eðlilegt að nota formlegt málsnið. Það eru notuð formleg ávörp og talið er allt svona frekar hátíðlegt þótt það sé á léttum nótum og kynnarnir syngi á móðurmálinu og svona. Meira að segja uppistandarinn er miklu formlegri í tali en hann væri t.d. á árshátíð að skemmta fullu og hálffullu fólki. Við þessar aðstæður er orðaval líka mun formlegra en ella.

 

Um stíl

 

Mörkin milli málsniðs og stíls eru ekki alltaf skýr. Stíll er líka búningur máls. Hann er oft persónulegur, til dæmis má segja að rithöfundar hafi hver sinn stíl. En það má líka segja að stíll sé n.k. framsetningarmáti, þ.e. hvernig tíðkast að setja mál fram eftir mismunandi greinum svo að dæmi sé nefnt. Það er til dæmis hægt að segja að margir stjórnmálamenn beiti ákveðnum stíl, oft með því að fara í kringum efnið án þess endilega að svara spurningunni. Það er talað um stofnanastíl eða svokallaðan kanesllístíl, sem hefur nafnorð í fyrirrúmi. Og það má t.d. vel halda því fram að ákveðinn stíll sé notaður í umfjöllun um listir. Hann getur verið mismunandi eftir því hvort verið er að fjalla um bókmenntir, myndlist, leiklist eða tónlist en það má segja að hann einkennist af háfleygri notkun lýsingarorða og mikilli hugtakanotkun. Hugtökin eru oft frekar ógagnsæ nema fyrir þann sem er innvígður í þennan heim.

 

Um markhóp

Markhópur er algengt hugtak. Það er víða notað, allt frá markaðsfræðum til læknavísinda. Það er að hægt að nota það, í umfjöllun um samskipti, um þann hóp sem tali er beint til. Við hvern er verið að tala, fyrir hvern er þessi texti? Texta getur verið beint til sérfræðinga í faginu. Þá er eðlilegt að hann sé á viðeigandi fagmáli. Texti getur líka verið skrifaður um tiltekna sérgrein en ætlaður almennum lesendum sem ekki hafa sérþekkingu á faginu. Þá þarf sá sem ritar textann að hafa í huga hverjir viðtakendur hans eru og gera sér grein fyrir því að þeir sem ekki hafa sérþekkingu í greininni geta átt í vandræðum með að skilja texta sem er uppfullur af flóknum og ógagnsæjum fagorðum. 

 

Gagnrýni

Nokkuð ber á misskilningu um merkingu orðsins gagnrýni. Oftar en ekki grípur fólk til þess að skýra það þannig að það merki að rýna til gagns. Það er ekki réttur skilningur á orðinu. Orðið gagnrýni er ekki samsett orð heldur svokallað afleitt orð, þ.e. orð sem myndað er með forskeyti. Gagn- í gagnrýni er ekki nafnorð heldur forskeyti. Það getur merkt gegn eða á móti eins og í orðunum gagnrök, gagnkvæmur og gagnstæður. Það getur líka merkt gegnum eins og í orðunum gagntekinn og gagnsær.Og svo getur það merkt mjög eins og það gerir í orðunum gagnkunnugur og gagnmerkur.

 

Svo heppilega vill til að það er hægt að rekja uppruna orðsins gagnrýni.Valtýr Guðmundsson, ritstjóri Eimreiðarinnar, sagnfræðingur og alþingismaður, bjó orðið til og notaði það sem titil á grein í Eimreiðinni árið 1896.

Valtýr hefur mál sitt á því að í íslensku samfélagi sé skortur á því sem á erlendum málum kallast krítík. Þessi skortur sé svo tilfinnanlegur að það sé ekki einu sinni til íslenskt heiti yfir hugmyndina. Valtýr skýrir orðið þannig:

„Að »krítísera« er eiginlega það, að láta sér ekki nægja að skoða hlutina eins og þeir líta út á yfirborðinu, heldur leitast við að rýna í gegnum þá og gagnskoða, til þess að sjá hina innri eiginleika þeirra, bæði kosti og lesti. Það er með öðrum orðum að kafa í djúpið og sækja bæði gullið og sorann, greina það hvort frá öðru og breiða hvorttveggja út í dagsbirtunni, svo að allir, sem hafa ekki sjálfir tíma eða tækifæri til að vera að kafa, geti sjeð, hvað er gull og hvað er sori.“

 

Orðið gagnrýna, hefur því í raun og veru hvorki jákvæða merkingu (þ.e. rýna til gagns) né neikvæða, heldur fyrst og fremst hlutlausa. 

10.11.2015 kl.17:46
annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútvarpið