Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stígamót: 70% verða fyrir ofbeldinu í æsku

09.04.2019 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sjötíu prósent þeirra sem leita til Stígamóta voru beittir kynferðisofbeldi í æsku. Rúmlega fjögur hundruð leituðu til samtakanna í fyrsta sinn í fyrra og er það næstmesti fjöldi sem þangað hefur komið. Afleiðingar kynferðisofbeldis í æsku eru meiri en hjá þeim sem beittir eru ofbeldi á fullorðinsaldri. Þetta kemur í ársskýrslu Stígamóta sem kynnt var í dag.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir sjálfsvígshugsanir sækja meira á þá verða ungir fyrir obeldi en þá sem eldri eru. Alls leituðu 418 til samtakanna í fyrsta skipti í fyrra. 

„En heildarfjöldi fólks var nálægt þúsund,“ segir Guðrún. Í hitteðfyrra var metfjöldi þeirra sem komu til Stígamóta í fyrsta skipti.

„Það sem við höfum mestar áhyggjur af er að 70% af okkar fólki var beitt ofbeldi áður en það varð 18 ára og kom svo hingað eftir að það varð fullorðið til þess að vinna úr málunum sínum. Af þessum hópi höfðu 40% hvergi rætt ofbeldið við neitt fagfólk. Mjög lítið í skólum, hjá lögreglu, í kirkju og hjá heilsuverndarstöðvum. Þannig að okkur finnst ennþá mjög mikil áskorun að bæta hlustunarskilyrði til þess að taka við svona upplýsingum frá þessu fólki,“ segir Guðrún. 

 

 

Guðrún segir afleiðingar kynferðisofbeldis meiri þegar sá sem fyrir ofbeldinu verður er á barnsaldri.

Guðrún segir að það sem aftri ungu fólki frá því að leita sér hjálpar sé oft á tíðum sú lagaskylda að tilkynna beri málið til barnaverndar. Þannig eigi starfsfólk Stígamóta lögum samkvæmt að tilkynna mál ef manneskja undir 18 ára aldri leitari til samtakanna. Ofbeldismaðurinn sé oftast tengdur barninu fjölskylduböndum og því óttast barnið að kljúfa fjölskyduna segi það frá ofbeldinu. Guðrún segir að æskilegt væri að unnt væri að koma upp hjálparsíma fyrir börn þannig að þau geti nafnlaust rætt mál sín og fengið aðstoð.

 

Mynd: RÚV / RÚV

Í viðtali í þættinum Samfélagið á Rás 1 sagði Guðrún að best væri að nálgast börn á þeirra forsendum. 

„Nú veit ég að sumir hrylla sig yfir því sem svo kemur, vegna þess að það er svo alvarlegar afleiðingar af því að bera þessi leyndarmál svona lengi, að það þarf að gera börnum kleyft að fá að tala. Og ég hef stundum talað um að við gætum búið til einhver þau úrræði að börn gætu hringt, [...] þar sem eru landsins bestu sérfræðingar, þar sem er enginn númerabirtir, þar sem ekkert fer í gang og þau fá að tala án þess að nokkuð gerist. Bara að létta á sér leyndarmálunum sínum,“ segir Guðrún. 

„Þá gæti fólk talað um að þau beri ekki ábyrgð, að þeim beri að fá hjálp og hálpa þeim að opna málið í raun og veru. “

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV