Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stífla í refsimálum vegna Mannréttindadómstóls

23.08.2017 - 22:21
epa04590334 A general view of the entrance during the hearing in the case Perincek vs Switzerland, at the European Court of Human Rights (ECHR) in Strasbourg, France, 28 January 2015. The European Court of Human Rights holds a Grand Chamber Hearing in the
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Mynd: EPA - KEYSTONE
Refsimálum vegna skattalagabrota hefur verið frestað hjá ákæruvaldinu og héraðsdómstólunum, þar af nærri 70 málum hjá héraðssaksóknara. Ástæðan er dómur Mannréttindadómstólsins í maí um að ríkið hefði beitt refsikenndum viðurlögum í tvígang vegna sama brots. Beðið er dóms Hæstaréttar í máli sem flutt verður í september. 

Í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar var íslenska ríkið dæmt fyrir að brjóta á þeim mannréttindi en bæði fengu þeir álag á skattfjárhæð hjá yfirskattanefnd og voru dæmdir til refsingar hjá dómstólum. Mannréttindadómstóllinn horfði meðan annars til langs málsferðartíma. 

Ætla ekki að áfrýja dóminum

Fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstólinn sagði í fréttum RÚV eftir dóminn 18. maí að dómurinn væri byggður á misskilningi og að íslenska ríkið ætti að skjóta eða áfrýja dóminum til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. 

Vinnuhópur, sem dómsmálaráðherra skipaði í kjölfar dómsins 18. maí, hefur ákveðið að skjóta dómnum ekki til yfirdeildarinnar, Grand Chamber, eins og hún er kölluð, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara.

Líklegt að fjöldi mála verði felldur niður

Verið er að meta framhaldið það er „hvort gera þurfi lagabreytingar vegna málsmeðferðar á þessum málum, hvernig fara eigi með þau mál sem eru í kerfinu nú þegar o.s.frv.“, segir í svari frá embætti ríkissaksóknara við fyrirspurn Fréttastofu. „Ákvörðun um þau mál, sem eru til meðferðar og koma til meðferðar ákæruvalds eru þó algerlega á forræði þess. Það liggur fyrir að fella þarf niður nokkurn fjölda mála að öllu eða hluta ef að líkum lætur.“

Allt að 70 málum frestað hjá Héraðssaksóknara

Hjá Héraðssaksóknara eru nú 100 mál er varða skattalagabrot til meðferðar. Á milli 60 til 70 þeirra varða einstaklinga sem búið er að leggja á álag við endurákvörðun skattayfirvalda. Nú bíða öll þessi mál vegna óvissunnar. 

Fjölskipað í fordæmismáli

Fljótlega skýrast þó málin því 4. september verður flutt mál sem svipar mjög til máls Jóns Ásgeirs og Tryggva hjá Mannréttindadómstólnum. Hæstiréttur hefur ákveðið að sjö dómarar dæmi málið en svo fjölskipaður dómur heyrir til undantekninga. Í málinu hefur Hæstiréttur til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstólsins frá því í vor og verður dómur Hæstaréttar fordæmisgefandi fyrir þau fjölmörgu mál sem bíða.